Umfangsmiklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í flutningskerfi raforku en að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, eru mikilvægustu línurnar sem eru í undirbúningi jafnframt þær umdeildustu og vísar hann þar til nýrrar byggðarlínu, sem liggur frá Fljótsdalsstöð Austfjörðum alveg út á Reykjanes.
Tenging er nú komin frá Fljótsdalsstöð að Akureyri með lagningu Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3 en þær línur voru byggðar í góðri sátt við sveitarfélög og landeigendur. Þá er Suðurnesjalína 2 vonandi loksins að klárast á hinum enda samtengingarinnar milli landshluta.
Eftir standa Blöndulína 3, sem hefur verið í undirbúningi frá árinu 2008 en stefnt er á að ljúka leyfisferlinu á þessu ári, og Holtavörðuheiðarlínur 1 og 3, sem eru komnar styttra í ferlinu.
„Auðvitað er það ekki ásættanlegt að það taki svona mörg ár að klára þessar línur. Það er ekki mjög skilvirkt vegna þess að það eru í sjálfu sér engar stórkostlegar breytingar sem verða á framkvæmdunum þó ferlið sé lengra. Við eyðum mjög miklum tíma í löng og flókin ferli sem hægt væri að gera miklu skilvirkari og kostnaðarminni án þess að veita afslátt gagnvart umhverfissjónarmiðum,“ segir hann enn fremur.
Horfa þurfi á framkvæmdirnar í stærra samhengi en mörg lönd í Evrópu hafi til að mynda byrjað að skilgreina þjóðhagslega mikilvægar línur og sett þær í sérstakt leyfisveitingaferli sem tekur skemmri tíma.
„Þetta er ekki bara spurning um eitt sveitarfélag eða einn landshluta eða eitthvað slíkt, þetta eru þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir vegna þess að þær tengja saman allar virkjanir á landinu með nógu sterkum og öruggum línum. Þannig verður kerfið eitt og samhangandi og ef við lendum til dæmis í stærri náttúruhamförum eða vatnsskorti eins og verið hefur síðastliðin ár, þá getum við flutt orku á milli svæða og dregið úr áhrifunum,“ segir Guðmundur Ingi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.