Sem stendur nemur innviðaskuld í flutningskerfinu 86 milljörðum króna en sú upphæð er einungis til að koma kerfinu í viðunandi horf vegna tafa í uppbyggingu og endurnýjun.

Kostnaður vegna takmarkana í flutningskerfinu í árferði eins og verið hefur nema á bilinu 11-15 milljörðum króna á ári en til viðbótar kemur kostnaður vegna tapaðra tækifæra. Þá getur samfélagslegur kostnaður vegna skerðinga hlaupið á tugum milljarða.

„Það er óhagkvæmt fyrir þjóðina að búa við það ástand sem er í dag. Málin eru að tefjast fram úr hófi og þessi innviðaskuld sem við höfum upp á 86 milljarða varðar nánast eingöngu lykilframkvæmdir. Við erum í raun og veru að fara ofboðslega illa með orkuauðlindina vegna þess að við erum ekki að nýta þær virkjanir sem eru í landinu nógu vel,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Stjórnvöld þurfi að bregðast við og í því sambandi nefnir Guðmundur Ingi til dæmis svokallað raflínufrumvarp sem lagt var fram í fyrra, þar sem horft var til undirbúningsfasans og samvinnu við sveitarfélög. Frumvarpið hafi þó verið gallað og ekki hægt að skipa raflínunefndina en mikilvægt sé að bæta þar úr sem fyrsta skrefið í endurnýjun. Þá þurfi að rýna í leyfisveitingarferlin í orkumálum.

„Það þarf að fækka viðkomustöðum, fækka þeim stofnunum sem eru að gefa okkur sama álitið ítrekað, og svo er mjög mikilvægt að hafa úrræði ef að tímafrestir eru ekki virtir þannig að málin haldi áfram. Öll lönd eru að skoða þessi mál hjá sér út af samkeppnishæfni þjóða og vegna orkuskipta og dæmi eru um lönd sem hafa tekist að koma leyfisveitingarferlinu niður í tvö til þrjú ár sem var áður 8-12 ár eins og við erum að tala um hér. Það er hægt að gera þetta án þess að það sé verið að draga úr kröfunum og þetta mun spara verulegar upphæðir í undirbúningskostnað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.