Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 1,25 prósentustig eða 125 punkta á miðvikudaginn, eða 25 punktum meira en greiningardeildir, markaðsaðilar og veðbankar höfðu talið líklegast.

Á sama tíma var tilkynnt um hækkun svokallaðrar bindiskyldu, sem tvöfaldaðist úr 1% í 2%, en fæstum hefur líklega dottið í hug að á því mætti eiga von.

Bankinn virðist með þessu hafa viljað senda eins skýr skilaboð og hann mögulega gæti, í viðleitni til að tempra verðbólguvæntingar í aðdraganda kjaraviðræðna næsta vetur, en peningastefnunefnd hittist ekki aftur fyrr en að 14 vikum liðnum í ágúst.

„Við horfum fyrst og fremst á þetta sem skilaboð frá Seðlabankanum til bankanna um að við eigum að stíga varlega til jarðar varðandi lánveitingar,“ segir Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka.

„Þetta eykur jú það fé sem bankarnir þurfa að geyma hjá Seðlabankanum, en þetta hefur ekki neikvæð áhrif á lausafjárhlutföll.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.