Pittsburgh í Pennsylvaníu-ríki Bandaríkjanna hefur einnig verið kölluð stálborgin, þar sem stáliðnaðurinn var gríðarlega öflugur fram undir lok síðustu aldar, en borgin hefur verið í miklum umbreytingarfasa á undanförnum árum og er í dag orðin grænni borg. Þá hefur efnahagsumhverfið breyst verulega, meðal annars með innkomu tæknifyrirtækja á borð við Google og Meta.

Pittsburgh í Pennsylvaníu-ríki Bandaríkjanna hefur einnig verið kölluð stálborgin, þar sem stáliðnaðurinn var gríðarlega öflugur fram undir lok síðustu aldar, en borgin hefur verið í miklum umbreytingarfasa á undanförnum árum og er í dag orðin grænni borg. Þá hefur efnahagsumhverfið breyst verulega, meðal annars með innkomu tæknifyrirtækja á borð við Google og Meta.

Samhliða hafa miklir fólksflutningar verið til borgarinnar og er tiltölulega ódýrt að búa þar miðað við aðrar borgir Bandaríkjanna.

„Þarna er hátt menntunarstig og að mörgu leyti aðlaðandi viðskiptaumhverfi sem er að myndast,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, en Detroit, annar áfangastaður hjá Icelandair, hafi til að mynda verið í svipuðum umbreytingarfasa.

Flogið verður fjórum sinnum í viku til Pittsburgh.

„Þessar borgir vilja náttúrulega fá eins góðar flugtengingar og mögulegt er, það styrkir þeirra viðskiptalíf og annað slíkt. Það hefur gengið mjög vel hjá okkur í Detroit og í Raleigh Durham, þar höfum við séð mjög jákvæðar móttökur við vörunni okkar og innkomu okkar inn á þennan markað.“

Það er þó ekki aðeins tengingin við Evrópu sem horft er til heldur einnig Ísland sem áfangastaður.

„Þegar svona markaður er opnaður þá verða ákveðin margföldunaráhrif bara af því að fá beinu flugtenginguna inn. Á undanförnum árum hefur fullt af fólki verið að koma frá Pittsburgh svæðinu í gegnum aðra flugvelli til Íslands og við sjáum það bara margfaldast þegar það kemur beint flug inn á staðinn,“ segir Tómas. Þá sé Pittsburgh ekki síður skemmtilegur áfangastaður fyrir Íslendinga.

„Þetta er áhugaverð borg en ég held að Íslendingar þekki almennt ekki kosti hennar og það er okkar hlutverk að kynna þá fyrir Íslendingum. Það kviknar kannski á perunni hjá einhverjum í haust þegar að ameríski fótboltinn byrjar og fólk vill fara á Steelers leik.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.