Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur svarað erindi eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem snéri að mögulegum brotum á EES-samningnum vegna flokkunar vindorkuvers Landsvirkjunar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þá var spurt út í virkni rammaáætlunar út frá því.
Í svarinu segir að ferli rammaáætlunar sjái til þess að öll verkefni séu metin út frá sömu forsendum frekar en að horft sé sérstaklega til eignarhalds eða annarra þátta. Þá sé henni ætlað að draga úr stjórnsýslulegum hindrunum með því að hafa verklagið gagnsætt og skilyrði skýr.
Sagan sýnir aftur á móti að talsverðir annmarkar hafi verið á ferlinu og nýjasta dæmið snýr að flokkun verkefnisstjórn 5. áfanga rammaáætlunar á 10 vindorkukostum, þar sem lagt var til að allir kostirnir yrðu settir í biðflokk.
Nær allir hagsmunaaðilar sem skiluðu umsögn við drögin gagnrýndu tillöguna harðlega þar sem umfjöllun faghópa var verulega ábótavant, ýmsar staðreyndarvillur verið til staðar og ekki ljóst á hverju verkefnisstjórn byggði niðurstöður sínar. Endanlegar tillögur verkefnisstjórnar voru síðan birtar í samráðsgátt í lok janúar þar sem frestur til umsagna rennur út í næstu viku.
Meðal þeirra sem hafa skilað inn umsögn að nýju er fyrirtækið Qair, sem fer fyrir tveimur vindorkukostum af þeim tíu sem tillögurnar ná til. Í fyrri umsögn sinni benti félagið á að það hafi sent formlegt erindi til Umhverfisstofnunar og verkefnisstjórnar rammaáætlunar en annmarkar á umfjöllun verkefnisstjórnar væru svo víðtækir og alvarlegir að félagið teldi óhjákvæmilegt að árétta laglega afstöðu sína vegna málsins. Engin svör hafa þó borist og umbeðin gögn ekki verið afhent.
Í umsögn félagsins sem birt var í vikunni kemur fram að verkefnisstjórn hafi ekki nema að mjög litlu leyti tekið til greina þær umsagnir sem bárust í fyrra umsagnarferli, bæði frá Qair og öðrum hagsmunaaðilum.
Fyrirtækið sendi þá fyrir hálfum mánuði bréf á formann verkefnisstjórnar 5. áfanga þar sem bent var á mögulega hagsmunaárekstra en ákveðnir einstaklingar í verkefnisstjórn og faghópum ættu að teljast vanhæfir til starfa sökum persónulegra eða viðskiptatengdra málefna sinna.
Þannig hafi einn nefndarmaður í verkefnisstjórn tekið afgerandi afstöðu gegn þróun vindorku á opinberum vettvangi og tveir nefndarmenn í faghópi 2, sem á að meta áhrif framkvæmda m.a. á ferðaþjónustu, eigendur ferðaþjónustufyrirtækja. Félagið óskaði í bréfinu eftir skýringum vegna þessa en engin svör hafa borist.
„Hyggist verkefnisstjórn ekki verja tillögur sínar fyrir þeirri gagnrýni sem borist hefur í fyrra umsagnarferli, og þeirri sem berst í þessu umsagnarferli, er litið svo á að verkefnisstjórn gangist við þeim veigamiklu ágöllum sem bent hefur verið á og að þar með sé umfjöllunin í meginatriðum ómarktæk. Ef svo ber undir skorar Qair á verkefnisstjórnina að draga tillögur sínar til baka án frekari tafar,“ segir í umsögninni sem birt var í vikunni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.