Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur svarað erindi eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem snéri að mögulegum brotum á EES-samningnum vegna flokkunar vindorkuvers Landsvirkjunar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Flokkun virkjunarkostsins var breytt þegar þingið afgreiddi þriðja áfanga rammaáætlunar árið 2022.
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir að deila megi um það hversu ítarlegur sá rökstuðningur sem hefur fylgt afgreiðslum hefur verið hingað til, eða þurfi að vera. Rökstuðningur þingins hafi þó stundum bent á galla í ferli rammaáætlunar.
Þar má til að mynda nefna að við afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar ákvað nefndin að flytja ýmsa virkjunarkosti í biðflokk en rök nefndarinnar voru meðal annars þau að verkefnisstjórn og faghópar hafi ekki litið til ákveðinna þátta við flokkun virkjunarkostanna. Í einu tilviki segir nefndin t.a.m. að umfjöllun faghópanna hafi verið með þeim hætti að virkjunarkosturinn fékk ekki sömu málsmeðferð og aðrir nýir kostir.
„Þegar svoleiðis kemur upp eru þróunaraðilar skildir eftir í erfiðri stöðu. Það er óásættanlegt að landeigendur og þróunaraðilar hafi engan kost á því að fá ákvörðun verkefnisstjórnar eða Alþingis endurskoðaða fyrir dómstólum eins og alla jafna er með ákvarðanir sem teknar eru um réttindi og skyldur borgaranna. Þannig eru uppi efasemdir um að ferli rammaáætlunar standist almennar kröfur um jafnræði og sanngjarna málsmeðferð.“
Fullyrðing ráðuneytisins um að allir virkjunarkostir séu metnir út frá sömu forsendum í ferli sem er vísindadrifið og gagnsætt virðist þá standa völtum fótum ef horft er á söguna. Dæmi um að þingið hefur verið ósammála mati faghópa, verkefnisstjórna og ráðherra eru til að mynda mörg.
„Þetta misræmi er mjög óheppilegt og skapar óvissu. Fyrirtæki eru að fjárfesta háum fjárhæðum og verja fleiri árum í að framkvæma ítarlegar rannsóknir að kröfu stjórnvalda til að ganga úr skugga um hagkvæmni og vistvæni virkjunarkosta sinna. Flestum er ljóst að möguleikar á að komast í orkunýtingarflokk hafa því miður verið afar litlir vegna þátta í ferli rammaáætlunar sem eru framandi. Þrátt fyrir að ferlinu sé hampað fyrir að vera faglegt, jafnvel vísindalegt, þá er því miður ýmislegt sem bendir til annars,“ segir Finnur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.