Kjarasamningar sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði síðasta vor höfðu eflaust áhrif á tekjur sveitarfélaganna, sem skuldbundu sig til að halda gjaldskrárhækkun um í lágmarki. Lítil hækkun var á skatttekjum án framlaga Jöfnunarsjóðs milli ára en hjá Reykjavíkurborg var aukning um 1% og 0,6% hjá Kópavogsbæ.

Aftur á móti var mesta hækkunin hjá Árborg, eða um 14,6%, en hækkun tekna hjá Árborg skýrist af því að álag var sett á álagningarhlutfall útsvars í fyrra. Hjá hinum sveitarfélögunum var hækkunin á bilinu 1,2-4,2%.

Sé horft til skatttekna á hvern íbúa drógust þær saman hjá þremur stærstu; um 0,6% hjá Reykjavíkurborg, 1,1% hjá Kópavogsbæ og 0,1% hjá Hafnarfjarðarbæ. Hjá Akureyrarbæ stóðu skatttekjur á íbúa í stað en jukust um 0,7% hjá Reykjanesbæ og um 1% hjá Mosfellsbæ. Mesta aukningin var hins vegar hjá Árborg, eða um 8,8%, og næst kemur Garðabær með 4,2% aukningu.

Akureyringar voru með hæstu skattgreiðslurnar þar sem skatttekjur á hvern íbúa námu að meðaltali 1.072 þúsund krónum en næst kom Reykjavíkurborg, sem var í efsta sæti árið 2023, með skatttekjur upp á 1.050 þúsund krónur á hvern íbúa. Íbúar í Reykjanesbæ greiddu að jafnaði minni skatta en skatttekjur á hvern íbúa námu 889 þúsund krónum í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.