Laun og launatengd gjöld A-hluta, sem er að mestu rekinn með skattfé, jukust um allt að 5,3% hjá sex stærstu sveitarfélögum, þar af 0,6% hjá Reykjavíkurborg, en hjá Mosfellsbæ nam hækkunin 8,8%.

Hjá Árborg dróst launakostnaður aftur á móti saman um 1,4%. Launakostnaður sem hlutfall af skatttekjum var rúmlega 80% hjá Akureyrarbæ, Árborg og Mosfellsbæ í fyrra en hjá Reykjanesbæ, Garðabæ og Kópavogsbæ var hlutfallið aftur á móti ríflega 66%. Launakostnaður sem hlutfall af heildarútgjöldum var á bilinu 52%, hjá Reykjanesbæ og Garðabæ, til allt að 65%, hjá Akureyrarbæ.

Síðustu ár hefur launakostnaður á íbúa verið mestur hjá Akureyrabæ og Árborg en í fyrra nam kostnaðurinn á hvern íbúa 902 þúsund krónum hjá Akureyri og 829 þúsund hjá Árborg. Launakostnaðurinn er aftur á móti lægstur hjá Reykjanesbæ, eða um 590 þúsund.

Á bak við hvert stöðugildi sveitarfélaganna eru um 12 íbúar hjá Árborg, tæplega 13 hjá Akureyrabæ, og ríflega 14 hjá Reykjavíkurborg. Til samanburðar eru rúmlega 20 íbúar á bak við hvert stöðugildi hjá Garðabæ, tæplega 20 hjá Kópavogsbæ, og rúmlega 17 hjá Reykjanesbæ.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.