Talsverðar sveiflur hafa verið á mörkuðum frá miðvikudeginum í síðustu viku, eða hinum svokallaða „frelsisdag“ þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti umfangsmikla tolla gegn helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna og lágmarkstolla um 10% á allar innfluttar vörur.

Lækkanir á mörkuðum í kjölfar frelsisdagsins svokallaða eru þær mestu í lengri tíma en innrás Rússa í Úkraínu var síðasti atburðurinn sem hafði markverð áhrif á markaði víða um heim. Heimsbyggðin var þá enn að ná sér á strik eftir heimsfaraldurinn og verðbólgu og háum vöxtum sem fylgdu. Lækkanir á mörkuðum í kjölfar innrásarinnar voru þó talsvert minni en í upphafi faraldursins 2020 og á tímum fjármálakrísunnar 2008.

Ef litið er til VIX-vísitölunnar, sem mælir sveiflur á fjármálamarkaði út frá S&P 500 þar sem hærra gildi er merki um aukna óvissu, sést að langmesta óvissan á markaði var annars vegar í október og nóvember 2008 og í mars 2020, þegar gildi vísitölunnar fóru yfir 80. Í kringum innrás Rússa í Úkraínu fór vísitalan hæst í 37 og í 39 þann 5. ágúst 2024, þegar uppnám varð á mörkuðum í Bandaríkjunum og Asíu.

Á föstudag endaði vísitalan í 45 og á mánudaginn endaði vísitalan í 47 en fór yfir 60 þegar mest á lét yfir daginn. Í gær endaði vísitalan í 52 í lok dags en óvissan hefur einungis verið meiri í faraldrinum og fjármálakrísunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.