Fjárlagafrumvarp ársins 2025 er nú til umræðu á Alþingi en frumvarpið, sem fjármálaráðherra kynnti á dögunum, gerir ráð fyrir að 41 milljarðs króna halli verði af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Aukinn hagvöxtur umfram spár hefur bætt afkomu ríkissjóðs síðustu ár en nú virðist staðan önnur.

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 er nú til umræðu á Alþingi en frumvarpið, sem fjármálaráðherra kynnti á dögunum, gerir ráð fyrir að 41 milljarðs króna halli verði af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Aukinn hagvöxtur umfram spár hefur bætt afkomu ríkissjóðs síðustu ár en nú virðist staðan önnur.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir nýjustu hagtölur benda til þess að kólnun hagkerfisins sé hafin. Spurður um hvort mögulegt sé að gildandi spár ofmeti mögulega hagvöxt, rétt eins og hagvöxtur hefur verið vanmetinn undanfarin ár, segir Gunnar að hætt sé við því.

„Reynslan sýnir að í þeim tilfellum gengur illa að vinda ofan af auknum útgjöldum og aðlaga áætlanagerð að breyttum aðstæðum. Það á sérstaklega við þegar hagspár eru færðar niður á við,“ segir Gunnar og bendir á að rannsókn CEPR á fjárlagagerð Evrópusambandsríkja hafi leitt í ljós að hagvöxtur væri að jafnaði um einu prósentustigi lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Þrátt þessa vitneskju styðjast stjórnvöld gjarnan við bjartsýnni sviðmyndir til að rökstyðja áframhaldandi útgjaldaaukningu. Þessi innbyggða bjögun í áætlanagerðinni leiðir af sér verri rekstrarniðurstöðu en ella.“

Fleiri óvissuþættir geta sömuleiðis áhrif á áætlanagerð en þróun undanfarinna ára hafi sýnt að óvæntir skellir séu regla frekar en undantekning í íslensku hagkerfi að sögn Gunnars. Fjárlög stjórnvalda verði að byggja á raunsæjum hagspám og hafa svigrúm til að bregðast við ófyrirséðum áföllum auk þess sem læra megi af reynslu annarra ríkja.

„Í fyrsta lagi verður áætlanagerð að taka mið af tilhneigingu stjórnvalda til að byggja frekar á bjartsýnum en raunhæfum áætlunum. Nú virðist hafinn viðsnúningur hvað varðar efnahagshorfur. Í stað þess að þær batni þá versna þær nú með hverri nýrri hagspá,“ segir Gunnar.

„Í öðru lagi er nauðsynlegt að áætlanagerðin geri ráð fyrir ófyrirséðum skakkaföllum fyrir efnahaginn. Undirliggjandi hagspár sem áætlanir stjórnvalda byggja á gera það ekki. Í þriðja lagi þarf að tempra vöxt ríkisútgjalda en sagan sýnir að stjórnvöldum hefur reynst erfitt að vinda ofan af auknum útgjöldum. Upptaka útgjaldareglu myndi auka sveiflujöfnun og festu í opinberum fjármálum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.