Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hefur verið í ákveðnum umbreytingarfasa undanfarin ár hvað varðar þjónustu og sókn. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, hóf upprunalega störf sem markaðsstjóri hjá fyrirtækinu árið 2016 en hún lýsir því að aðeins nokkrum mánuðum eftir að hún kom inn hafi orðið stórar breytingar.

Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hefur verið í ákveðnum umbreytingarfasa undanfarin ár hvað varðar þjónustu og sókn. Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, hóf upprunalega störf sem markaðsstjóri hjá fyrirtækinu árið 2016 en hún lýsir því að aðeins nokkrum mánuðum eftir að hún kom inn hafi orðið stórar breytingar.

„Þá kemur þáverandi forstjóri inn, Helgi Bjarnason, og hann vildi leggja áherslu á stafræna þáttinn. Á þeim tíma var félagið mjög illa statt þegar kom að þessari stafrænu þróun, það tók að meðaltali 24 daga að koma í viðskipti við okkur, öll tjónaumsýsla var á pappír og við vorum föst á milli tveggja grunnkerfa. Félagið stóð frammi fyrir mjög stórum áskorunum, eins og öll rótgróin félög standa frammi fyrir, sem fólust í því að nútímavæðast. Það var mjög rík þörf á því,“ segir Guðný Helga.

Hún tók þá við sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og var fyrsta verkefnið að gera tjónstilkynningar rafrænar auk annarra verkefna þvert á fyrirtækið. Nokkrum árum síðar tók hún við upplýsingatæknideildinni og sameinaði við deild stafrænnar þróunar. Vorið 2022 tók hún síðan við sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu en skömmu síðar urðu aftur stórar breytingar.

„Það höfðu orðið breytingar á framkvæmdastjórn og í janúar 2023 sit ég hér við þetta borð sem framkvæmdastjórnin fundar við, með mannauðsstjóranum og það var enginn annar í framkvæmdastjórahópnum. Á sama tíma setur stjórnin fram mjög metnaðarfull markmið um útvíkkun á starfseminni sem fólst í viðræðum við Fossa fjárfestingabanka og að breyta félaginu í að vera meira söludrifið. Þá tók við að byggja upp félagið í takt við þá stefnu og það höfum við verið að gera.“

Samlegðaráhrif hafa þegar byrjað að koma fram í kjölfar þess að Fossar fjárfestingabanki kom inn í samstæðuna. Í uppgjöri samstæðunnar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2024 kemur fram að lækkun kostnaðar nemi 210 milljónum króna á ársgrundvelli og tekjuáhrif námu ríflega 100 milljónum á fyrri helmingi ársins, að stórum hluta þar sem viðskiptavinir Fossa hafa gerst viðskiptavinir VÍS en gert er ráð fyrir að áhrif þess að viðskiptavinir VÍS nýti sér þjónustu Fossa birtist á seinni helmingi ársins.

„Við töluðum um að þetta væri sameining til sóknar og þetta byggist á því að við getum boðið viðskiptavinum okkar upp á breiðara vöruframboð og orðið samherji á breiðari grunni en áður,“ segir Guðný Helga um innkomu Fossa. „Við erum núna öll í sama húsi og þessi vinna hefur farið mjög vel af stað hjá okkur. Ég held að við eigum gríðarlega spennandi tækifæri inni í framhaldinu.“