Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, segir að aðgerðir sem gripið var til í byrjun árs 2023 byrjaðar að skila árangri. Vísbendingar eru þá um að fyrirtækið sé að vaxa á arðbæran hátt en á fyrri helmingi ársins jukust tekjur félagsins um 10% á meðan tjón jukust um 4%. Hvað samsetta hlutfallið varðar er gert ráð fyrir að það verði á á lægri enda bilsins 94-97%.
„Auðvitað er það þannig að tjón koma ekki meðaltölum. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og ástæðan fyrir því að við erum til er að taka á því. En við erum meira að taka stjórn á því sem við höfum í raun stjórn á, hvaða strategíu og stefnu við ætlum að nota í þjónustu og sóknina okkar og hvernig við ætlum að viðhalda henni,“ segir Guðný Helga.
„Við erum rétt að byrja og okkar langtíma markmið er að við ætlum okkur að vera með ánægðustu viðskiptavinina. Við erum auðmjúk gagnvart því að við gerum okkur grein fyrir því að við eigum eftir að laga ákveðna hluti, en við erum á leiðinni og einblínum á það. Við ætlum okkur líka að vera best rekna tryggingarfélagið, það er okkar markmið. Það gerist ekki á einni nóttu en við erum byrjuð að sjá árangur af því sem við erum að gera.“
Áætlanir VÍS ná þrjú ár fram í tímann en eðli málsins samkvæmt getur það reynst hægara sagt en gert að sjá fyrir hvernig þróunin verður. Reynslan hafi sýnt að ómögulegt sé að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér.
„Við vorum til dæmis búin að sitja á mörgum áhættugreiningar fundum og engum datt í hug að áhættumeta ef það kæmi heimsfaraldur. Lífið bara gerist og það er líka rosalega mikilvægur hluti af því að reka félag, að stöðugt taka rýni á það sem maður er að gera,“ segir Guðný Helga. Þá þurfi að taka tillit til þess að tryggingar eru ekki eins og hver önnur söluvara.
„Tryggingar eru þess eðlis að þær kosta mikið og fólk finnur fyrir þeim í heimilisbókhaldinu en þarna er fólk í rauninni að kaupa óáþreifanlega vöru sem það vonast til þess að þurfa aldrei að nota og heldur að það muni aldrei þurfa að nota. Ég hef farið á tjónsstaði og hitt viðskiptavini sem hafa lent í stórum tjónum, þá upplifir maður virðið mjög vel og hversu mikilvægur þáttur tryggingar eru í lífi fólks,“ segir Guðný Helga en á árinu 2023 greiddi félagið til að mynda 19,3 milljarða króna í tjónabætur vegna ríflega 37 þúsund tjóna.
Nánar er rætt við Guðnýju Helgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.