Svört staða er að teiknast upp í orkumálum hér á landi. Síðustu vetur hefur þurft að skerða raforku til stórnotenda og samkvæmt nýrri skýrslu Landsnets um kerfisjöfnuð hefur staðan ekki batnað.
„Við höfum bent á að það séu líkur á orkuskorti frá árinu 2019 og síðast þegar kerfisjöfnuður kom út árið 2022. Nú er orkuskorturinn að birtast okkur og er fyrirsjáanlegur næstu ár og staðan fer versnandi ef eitthvað er. Við sjáum úr niðurstöðunum að það aukast líkur á skerðingum á tímabilinu 2024 til 2028,“ segir Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar hjá Landsneti.
Þrjár sviðsmyndir eru dregnar upp í niðurstöðunum sem kynntar eru í skýrslunni. Í þeirri fyrstu eru engar nýjar framkvæmdir, í annarri er gert ráð fyrir uppbyggingu á flutningskerfinu, og í þeirri þriðju er gert ráð fyrir uppbyggingu og nýjum virkjunum.
Hvað uppbyggingu flutningskerfisins varðar gerir Landsnet ráð fyrir að tólf framkvæmdum verði lokið á tímabilinu sem hafa sérstaklega áhrif á kerfisjöfnuð. Samtenging landshluta næst þó ekki að fullu á tímabilinu.
„Styrkingar á flutningskerfinu á tímabilinu duga því ekki einar og sér til að draga úr áhættunni að fullu en með nýjum virkjunum sem áformaðar eru eða stækkun á núverandi virkjunum þá getum við dregið töluvert úr henni. En ef að það er slæmt vatnsár eða ef að það kemur eitthvað upp þá erum við strax komin í verra ástand. Þannig það er í rauninni staðan, það er þröngt í búi,“ segir Svandís.
Þá er um að ræða framkvæmdir sem taka langan tíma og eru ákveðinni óvissu háð, bæði hvað varðar nýjar virkjanir og framkvæmdir í flutningskerfinu. Þar spilar langt og flókið leyfisveitingarferli stórt hlutverk.
„Það er alveg hætta á því miðað við fyrri sögu og reynslu að eitthvað af þessu gæti tafist, sem við vonandi sjáum ekki. Það þarf að tryggja að þetta nái í gegn en það er ekki verið að tala um að slá af umhverfiskröfum eða neitt slíkt, en þetta þarf að ganga.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.