Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna tók ákvörðun í síðustu viku um að halda leiðandi stýrivöxtum í núverandi bili, 4,25-4,50%.
Bankinn lækkaði vexti um samtals 100 punkta á síðasta ári. Greinendur gera ráð fyrir að vextir lækki um samanlagt 50 punkta á árinu. Allar líkur séu á að vextir haldist óbreyttir til sumars, í hið minnsta.
Öflugur vinnumarkaður er meðal þess sem kemur í veg fyrir að stýrivextir vestanhafs lækki eins ört og einhverjir höfðu vonast eftir. Atvinnuleysi mældist 4,2% í desember sl. og 256 þúsund ný störf bættust við í mánuðinum. Til viðbótar við öflugan vinnumarkað telja margir hagfræðingar að tollastefna Trumps geti reynst verðbólguhvetjandi, eins og áður var nefnt.
Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 0,4% milli mánaða í desember og mældist verðbólgan á ársgrundvelli 2,9%. Þá lækkaði kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, milli mánaða og mældist 3,2% á ársgrundvelli.
Eftir fjármálakreppuna 2008 hélt Seðlabanki Bandaríkjanna stýrivöxtum stöðugum í 0-0,25% frá 2009-2015 til að ýta undir efnahagsbatann. Árið 2016 voru stýrivextir 0,25-0,5% þar til vaxtahækkunarferli hófst í lok sama árs.
Stýrivextir voru komnir upp í 2,25-2,5% þremur árum síðar, árið 2019. Í kjölfar faraldursins voru vextirnir lækkaðir aftur í 0-0,25%. Í dag standa vextir í 4,25-4,5% og ólíklegt að jafnvægisvextir fari aftur niður í 0% á næstu árum.
„Fólk má ekki gleyma því að fyrir fjármálahrunið 2008 stóðu stýrivextir í kringum 5%. Vaxtastigið sem var á árunum eftir hrunið mun ólíklega koma aftur. Líklegra er að við förum aftur til heimsins sem var á undan, heimsins sem varði í 200-300 ár,“ segir Jón Daníelsson hagfræðiprófessor.
Spurður hvers vegna 0% vextir og peningaprentun seðlabanka leiddu ekki til verðbólgu á árunum eftir hrun segir Jón að peningarnir hafi einfaldlega ekki farið út í hagkerfið vegna sérstakra aðstæðna sem munu ekki endurtaka sig.
„Mörgum þótti óskiljanlegt að verðbólga hafi ekki farið af stað við þessar aðstæður. En þegar þetta tímabil er skoðað nánar kemur í ljós að peningurinn sem var prentaður, í formi kaupa Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, fór ekki beint út í hagkerfið. Þess í stað safnaðist féð saman á tékkareikningum, sem bankarnir lögðu síðan inn á varasjóðsreikninga sína hjá Seðlabankanum.“
„Þetta skapaði ákveðinn vaxtamun, sem varð grunnur að hagnaði bankanna. Þetta kom augljóslega fram í Bandaríkjunum þar sem innistæður á tékkareikningum þrefölduðust og veltuhraði peninga hrapaði. Af þessari ástæðu varð ekki verðbólga,“ bætir Jón við að lokum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.