Basko, móðurfélag 10-11 og Kvikk verslananna, sem er í eigu Skeljungs, hefur lokað verslun 10-11 á Keflavíkurflugvelli og hyggst einnig loka 10-11 verslun í Kvosinni í miðbæ Reykjavíkur. Auk þess verður minni Kvikk verslunum á eldsneytisstöðvum Orkunnar lokað og verslunarrýmin leigð út en þangað til verða verslanirnar opnar.
Félagið segir að um tímabundnar lokanir sé að ræða í tilviki 10-11 verslananna, en með þeim er verið að bregðast við fækkun ferðamanna hingað til lands.
Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur félagið verið í miklum rekstrarerfiðleikum og tapaði það 246 milljónum króna á síðasta ári en það var keypt af Skeljungi á síðasta ári á 30 milljónir auk yfirtöku 300 milljóna króna skulda.
- Sjá einnig: Lögðu Basko til 300 milljónir
Þá stendur til að leigja út nokkur verslunarrými við bensínstöðvar Orkunnar og hætta starfsemi Kvikk á minni þjónustustöðvum, auk þess sem opnunartími nokkurra verslana hefur verið styttur.
Þessar aðgerðir hafa leitt til uppsagna starfsmanna. Um er að ræða 50 starfsmenn sem hafa fengið uppsögn frá því í september en vonast er til þess að hægt verði að endurráða einhverja þeirra þegar ferðamönnum fjölgar á ný.