Skyggnir Eignarhaldsfélag, áður Origo, hagnaðist um 10,1 milljarð króna á síðasta rekstrarári.
Árið 2024 var fyrsta starfsár Skyggnis eftir uppskiptingu Origo þar sem allur rekstur félagsins var færður í þrjú sjálfstæð dótturfélög frá og með 1. nóvember sl.
Þar með fluttist starfsemi Origo sem sneri að rekstrarþjónustu, innviðum og hugbúnaði í aðskilið dótturfélag, Origo ehf, sem Skyggnir á nú 100% hlut í.
Gangvirðisbreytingar fjáreigna Skyggnis voru jákvæðar upp á 9,9 milljarða króna á síðasta ári. Aðrar fjármunatekjur námu 600 milljónum.
Því námu heildartekjur Skyggnis af fjárfestingastarfsemi á síðasta ári 10,5 milljörðum króna. Hagnaður félagsins nam 10,1 milljarði króna eins og áður segir, en afkoma af aflagðri starfsemi nam 435 milljónum króna.
20 milljarða eignir
Við gerð ársreiknings Skyggnis varð breyting á reikningshaldslegu mati frá fyrra ári. Þannig uppfyllir félagið þau skilyrði sem sett eru fram í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IFRS 10 til þess að flokkast sem fjárfestingafélag.
Dóttur- og hlutdeildarfélög flokkast því sem fjárfestingaeignir og ekki er gerður samstæðureikningur. Samanburðarfjárhæðir byggja á móðurfélagsreikningi og eru því ekki að fullu samanburðarhæfar. Fjárfestingaeignir eru metnar á gangvirði og er matsbreytingin færð í gegnum rekstrarreikning í samræmi við IFRS 9.
Eignir félagsins í árslok 2024 námu 20,5 milljörðum króna samanborið við 11,2 milljarða króna árið áður. Helsta breytingin þar milli ára er sú að eignarhlutir í félögum eru færðir á gangvirði í gegnum rekstur.
Eigið fé félagsins í árslok nam 15,3 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024 sem nemur allt að fjórum milljörðum króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.