Samstæða Haru Holding, sem er móðurfélag flugfélagsins Air Atlanta, skilaði ríflega 10 milljarða króna hagnaði á síðasta ári en afkoma félagsins jókst um 2% frá fyrra ári.

Stjórn Haru Holding leggur til arðgreiðslu til hluthafa á árinu 2025 að fjárhæð 65 milljónir dala, eða sem nemur 8,3 milljörðum króna á núverandi gengi krónunnar.

Rekstrartekjur samstæðunnar jukust um 14% milli ára og námu 377 milljónum dala eða um 52 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins nam 94 milljónum dala eða um 13 milljörðum króna.

Eignir Haru Holding voru bókfærðar á 358 milljónir dala, eða um 49,5 milljarða króna, í árslok 2024. Eigið fé nam ríflega 34 milljörðum króna.

Pund ehf., félag Hannesar Hilmarssonar, starfandi stjórnarformanns samstæðunnar, er stærsti hluthafinn með 50% hlut. Geva ehf., félag Geirs Vals Ágústssonar, á 30% hlut, og félög í eigu Stefáns Eyjólfssonar og Helga Hrafns Hilmarssonar eiga 10% hlut hvor um sig.

Haru Holding á 80% hlut í Flugfélaginu Atlanta ehf. á móti 20% hlut Natsu Holding ehf. sem er í eigu fimm stjórnenda flugfélagsins. Baldvin Már Hermannsson er stærstu hluthafi Natsu Holding með 40% hlut.

Baldvin Már Hermannsson og Flugfélagið Atlanta hlutu Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2024. Fjallað var ítarlega um félagið og rætt við Baldvin Már um starfsemina í tímaritinu Áramót.