Íslensk félög fara með 37% hlut í Borealis Data Center sem áætla má að sé um 10 milljarða virði miðað við verðmat félagsins í sölu á 63% hlut í gagnaversfyrirtækinu.
Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Borealis og formaður Samtaka gagnavera, var í árslok 2020 með 5,66% hlut í Borealis. Miðað við viðskiptin er hluturinn hans metinn á 1,5 milljarða króna. Hugbúnaðarfyrirtækið Impulse ehf., sem Björn leiðir, á síðan 6,37% hlut samkvæmt sama ársreikningi. Sá hlutur er metinn á 1,76 milljarða miðað við sömu útreikninga.
Tvö félög sem Gísli Hjálmtýsson fjárfestir leiðir fóru með umtalsverðan hlut í félaginu samkvæmt ársreikningi frá árinu 2020. Brú Venture Capital átti í árslok 2020 11,6% hlut sem áætla má að sé metinn á um 3,2 milljarða króna. Jafnframt á Íslenskt hugvit ehf. 5,1% hlut sem metinn er á 1,4 milljarða, miðað við sömu útreikninga.
Sala gagnavera til erlendra fjárfesta
Borealis Data Center er ekki eina gagnaverið hér á landi sem hefur verið selt erlendum aðila. Hin stóru gagnaversfélögin hér á landi, atNorth og Verne Global voru einnig seld á árinu 2021.
Svissneska fjárfestingarfélagið Partners Group keypti atNorth og fjárfestingarfélagið Digital 9 Infrastructure keypti Verne Global. Meðal hluthafa Verne Global voru Stefnir og Novator Partners, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.