Ríkissjóður mun gjaldfæra 10,1 milljarðs króna sölutap í ár vegna sölunnar á 45% hlut ríkisins í Íslandsbanka með almenna hlutafjárútboði sem fór fram um miðjan maímánuð. Þetta kemur fram í ríkisreikningi sem var birtur á mánudaginn.

Söluandvirði ríkisins í útboðinu, þar sem útboðsgengi var 106,56 krónur á hlut, var 90.576 milljónum króna. Til samanburðar var eignarhlutur ríkisins metinn á 102,0 milljarða króna í árslok 2024.

Að teknu tilliti til ársfjórðungsuppgjörs 2025 og beins sölukostnaðar nam sölutap 10,1 milljarði króna.

„Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka fór fram með góðum árangri og sýndi trú fjárfesta á íslenskt efnahagslíf,“ segir í inngangsorðum Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra í ríkisreikningnum.

Útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka stóð yfir 13. - 15. maí sl. Ríkið átti fyrir 805 milljón hluti eða um 45,2% af útistandandi hlutum í bankanum. Upphaflega stóð til að selja allt að 20% hlut ríkisins í bankanum en útboðið var í kjölfarið stækkað og náði þá til allra hluta ríkissjóðs.

Sem fyrr segir voru allir hlutir ríkisins seldir á genginu 106,56 krónur. Það verð fékkst með því að taka fimmtán daga meðalgengi í aðdraganda útboðsins og draga 5% af, sem var sá afsláttur sem lög um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka heimiluðu.

Heildareftirspurn útboðsins nam alls um 190 milljörðum króna. Tilboð í tilboðsbók A, sem var í forgangi, námu samtals 88,2 milljörðum króna eða sem samsvarar um 97,4% af heildarvirði útboðsins. Tilboðsbók A var eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu.