Nýjar íbúðir sem selst hafa á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári eru bæði færri og stærri en í fyrra, að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.
Mikill samdráttur
Á fyrsta ársfjórðungi seldust innan við 200 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem jafngildir um 11% allra kaupsamninga á svæðinu.
„Um er að ræða mikinn samdrátt frá því sem var á fyrsta ársfjórðungi 2024 þegar 326 nýjar íbúðir seldust á höfuðborgarsvæðinu, en fjöldi eldri íbúða sem gengu kaupum og sölu á höfuðborgarsvæðinu hélst óbreyttur milli ára.“
HMS segir að nýjar íbúðir seljist nú hægar en áður á sama tíma og fleiri nýjar íbúðir eru til sölu. Þannig hafi birgðatími nýrra íbúða lengst og sé sögulega langur um þessar mundir, eða í kringum 16 mánuðir á höfuðborgarsvæðinu.
Fram kemur að meðalstærð nýrra seldra íbúða hafi verið 106 fermetrar í mars og yfir 100 fermetrar í febrúar, en meðalstærð nýrra seldra íbúða var 100 fermetrar eða minni allt síðasta ár ef frá er talinn einn mánuður um mitt ár.

10 milljóna munur á meðalverði
Meðalfermetraverð í viðskiptum með nýtt íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í mars nam 893 þúsund krónum. Meðalfermetraverð á eldra húsnæði í marsmánuði var aftur á móti 801 þúsund krónur.
„Tæpum 10 milljón krónum munaði á meðalkaupverði nýrra og annarra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í mars. Meðalkaupverð nýrra íbúða var 90,7 miljónir króna en meðalkaupverð annarra íbúða 81 milljónir króna.”
