Launapakki Elon Musk við Tesla, sem er yfir 100 milljarða dala virði, eða yfir 13,8 þúsund milljarða króna, miðað við dagslokagengi hlutabréfa Tesla hefur verið ógildur í annað sinn af dómara í Delaware í Bandaríkjunum. Tesla er líkt og fjölmörg hlutafélög skráð í ríkinu.
Í frétt Wall Street Journal segir að úrskurðinn skapi óvissu hjá stjórn Tesla um hvernig eigi að umbuna Musk fyrir störf sín í meira en áratug fyrir rafbílaframleiðandann.
Ákvörðun dómarans kemur í kjölfar þess að hluthafar Tesla samþykktu launapakka Musk í annað sinn í júní síðastliðnum. Tesla hafði fært rök fyrir því að kosningin á hluthafafundinum hefði tekið á ýmsum atriðum í gagnrýni dómstólsins um að hluthafar hefðu ekki verið nægjanlega upplýstir um innihald launapakkans.
Dómarinn segir að seinni kosningin meðal hluthafa Tesla hefði ekki haft áhrif á álit sitt. Hún segir að röksemdafærsla lögmanna Tesla og Musk hafi verið „skapandi“ (e. creative). Ákvörðunin hafi að lokum byggt á því að ekki liggi fyrir fordæmi sem styðji við málflutning Tesla og Musk.
Tesla og Musk eiga rétt á að kæra úrskurðinn. Hlutabréfaverð Tesla hefur lækkað um meira en eitt prósent í viðskiptum fyrir opnun markaða.