Meta, móðurfélag Facebook, hefur samþykkt að greiða 725 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 104 milljörðum króna á gengi dagsins, í dómssátt. Netrisinn var sakaður um að hafa gefið Cambridge Analyica og öðrum utanaðkomandi aðilum aðgang að persónuupplýsingum um milljónir notenda.
Fulltrúi hóps sem stefndi Meta, sem hét þá Facebook, segir að sáttagreiðslan gæti verið sú stærsta sögunni í tilviki hópmálsóknar vegna brota á persónuupplýsingalögum.
Meta samþykkti í ágúst að ljúka málinu með sátt en ekki hafði verið gefið upp fjárhagslegar upplýsingar um sáttina. Endanlegt samkomulag náðist í gær og bíður nú samþykkis hjá dómstólum.
Talsmaður Meta sagði að sáttin sé í þágu hagsmuna samfélagsins og hluthafa. Fyrirtækið segist hafa endurskoðað stefnu og nálgun sína til öryggis á persónuupplýsingum notenda síðustu þrjú árin og innleitt nýja stefnu.
Málið snýr einkum að því að Cambridge Analytica, fyrrum breskt ráðgjafarfyrirtæki á sviði stjórnmála, fékk aðgang með ólögmætum hætti að upplýsingum um tugmilljónir notenda á Facebook og nýtti sér þær, m.a. við kosningaherferð Donald Trump árið 2016.
Meta var sektað á sínum tíma í Bandaríkjunum og Bretlandi. Félagið samþykkti einnig að gera breytingar er varða notkun persónuupplýsinga í kjölfar 5 milljarða dala sáttar við Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna árið 2019.