Nýr rammasamningur um raforku fyrir stofnanir ríkisins tók gildi í byrjun nóvember í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Innkaup A-hluta stofnana sem hluti af samningnum árið 2024 eru talin mögulega geta numið einum milljarði króna samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum.

Fyrir útboðið var gerð krafa um að uppruni orkunnar flokkaðist sem grænn í takt við stefnu ríkisins um sjálfbær innkaup og því voru upprunaábyrgðir keyptar samhliða.

Í svari Ríkiskaupa við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að upprunaábyrgðir séu innifaldar í verðinu sem kaupendur samþykktu en upprunaábyrgð er um 10% af verðinu, eða um 100 milljónir.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni telst ávinningurinn með sameiginlegu útboði um 48 milljónir á ári miðað við að útboðið hefði ekki átt sér stað og kaupin verið á þeim tilboðsverðum sem rammasamningurinn bauð upp á án skuldbindandi kaupa.

Um er að ræða árlegan kostnað en rammasamningurinn gildir í tvö ár, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn.

Evrópskt viðskiptakerfi upprunaábyrgða var innleitt hér á landi með lögum árið 2008 og hóf Landsvirkjun sölu þeirra árið 2011. Til þess að viðskiptavinir geti markaðssett sig sem notendur endurnýjanlegrar orku þarf að kaupa upprunaábyrgð. Undir lok árs 2022 tilkynnti Landsvirkjun að frá og með árinu 2023 myndu slíkar ábyrgðir ekki fylgja endurgjaldslaust með orkukaupum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.