Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar tilkynnti í dag nýjar aðgerðir til að auðvelda Spánverjum aðgang að húsnæði.
Þeirra á meðal er allt að 100% skattur sem leggst ofan á kaupverð fasteigna. Skatturinn beinist að þeim sem eru búsettir utan Evrópusambandsins, ekki síst kaupenda frá Bretlandi. Financial Times og spænskir fjölmiðlar fjalla um málið.
Ekki kom fram á fundinum hvort íbúar EFTA ríkjanna teljist utan Evrópusambandsins, þar með taldir Íslendingar, en ólíklegt verður að teljast að svo sé.
Markmið breytinganna
Að sögn Sánchez voru 27.000 fasteignir keyptar af fólki búsettu utan ESB á árinu 2023. Hann segir þær aðallega til að græða á þeim frekar en til búsetu.
„Við getum ekki leyft slíka spákaupmennsku í ljósi húsnæðisskortsins sem við erum að glíma við,“ sagði forsætisráðherrann á kynningarfundi í morgun.
Nýju reglurnar eru liður í 12 aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti til að takast á við húsnæðiskreppuna á Spáni.
Áhrif á erlenda fasteignakaupendur
Þessi nýja löggjöf gæti orðið mikið áfall fyrir marga Breta og Bandaríkjamenn sem dreymir um að eiga sumarhús á Spáni. Nú þegar hefur „90 daga reglan“ sem takmarkar dvöl þeirra í Evrópusambandslöndunum gert mörgum erfitt fyrir.
Með nýju skattlagningunni gæti það orðið ómögulegt fyrir marga að kaupa eignir.
Viðskiptablaðið greindi frá því í október í fyrra að aðgerðir katalónskra yfirvalda til að sporna gegn hækkandi leiguverði hafi borið afar dræman árangur. Í Barcelona hefur öflug ferðaþjónusta og stöðug fjölgun ferðamanna leitt til þess að erlendir fjárfestar hafa keypt fjölda íbúða til að leigja út.
Leiguþak, sem sett var á í Katalóníu til að sporna við hækkandi húsnæðiskostnaði, hafi þvert á móti dregið úr langtímaleigusamningum í Barcelona um 65% síðan 2019.
Á sama tíma hafi samkeppni um leiguíbúðir aukist stórkostlega, þar sem 63 fjölskyldur keppi nú um hverja íbúð að meðaltali, samanborið við níu fjölskyldur árið 2019.
12 lykilaðgerðir ríkisstjórnarinnar
Hér eru þær aðgerðir sem Pedro Sánchez kynnti til að bæta húsnæðismarkaðinn á Spáni í dag:
- Félagslegt húsnæði: Yfir 3.300 fasteignir og 2 milljónir fermetra af landi verða færðar yfir í nýtt fasteignafélag ríkisins. Byggt verður félagslegt húsnæði á lóðunum.
- Nýting SAREB eignasafnsins: Opinbera húsnæðisstofnunin fær yfir 30.000 eignir til leigu, 13.000 strax. SAREB er fjármálastofnun sem tekur yfir „vondar“ eignir frá spænskum fjármálastofnunum.
- Opinber yfirráð: Allar eignir sem byggðar eru af ríkinu verða varanlega í opinberri eigu.
- Allt að 100% skattlagning fyrir erlenda kaupendur utan ESB: Fasteignakaup erlendra aðila utan ESB verða takmörkuð 100% skatti.
- Strangari reglur gegn leigufalsi: Sterkara eftirlit á skammtímaleigu.
- Skattlagning á ferðamannaíbúðir: Ferðamannaíbúðir verða skattlagðar eins og önnur atvinnustarfsemi. Meðal annars lagður virðisaukaskattur á útleigu.
- Breytingar á skattfríðindum: Skattaleg fríðindi fasteignafélagsins SOCIMIS verða bundin við ódýrt húsnæði.
- Vernd fyrir leigusala og leigjendur: Opinber ábyrgð verður veitt til leigusamninga sem eru á „viðráðanlegu“ verði.
- Endurbætur tómra húsa: Ríkið aðstoðar við að breyta þeim í ódýrt leiguhúsnæði.
- Skattfríðindi fyrir félagslegt húsnæði: 100% undanþága frá tekjuskatti fyrir þá sem leigja húsnæði á viðráðanlegu verði.
- Nýsköpun í byggingariðnaði: Nýtt ríkisstyrkt verkefni sem á að styðja við þróun og iðnvæðingu byggingarframkvæmda.
- Aukin húsnæðisaðstoð: Hækkun húsaleigubóta.
Hlutdeild erlendra kaupenda
Í dag eru erlendir kaupendur stór hluti fasteignamarkaðarins á Spáni. Bretar eru stærsti hópur erlendra kaupenda með 8,37% hlutdeild, á eftir fylgja Þjóðverjar með 6,8% og Marokkóbúar með 6,1%.
Nýja löggjöfin gæti haft áhrif á þessa þróun og breytt gangverki fasteignamarkaðarins verulega.