Viðskiptablaðið hefur tekið saman upplýsingar um starfsemi og eignarhald 400 samlags- og sameignarfélaga og reiknað út hagnað og laun árið 2023 út frá upplýsingum sem fram koma í álagningarskrá lögaðila. Ríflega 500 félög greiddu meira en fimm milljónir í tekjuskatt í fyrra.

Samanlagður hagnaður hjá þeim 400 félögum sem blaðið tók fyrir í ár nam 11,6 milljörðum króna í fyrra og launagreiðslur hljóðuðu upp á 12,5 milljarða. Meðalhagnaður nam því 29 milljónum króna og meðallaunagreiðslur ríflega 31 milljón. Hvað efstu tíu félögin varðar högnuðust þau um 2,5 milljarða og greiddu svipaða upphæð í laun.

Um er að ræða talsvert hærri upphæð en á fyrri árum, þar sem heildarhagnaður nam um 9,2 milljörðum og launagreiðslur námu 10,5 milljörðum í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrra. Spilar aukinn hagnaður ráðgjafafyrirtækja og lögmannsstofa, einna helst Logos, líklega stórt hlutverk.

Félög lækna eru áberandi á listanum en þau eru alls 150 talsins í þessari úttekt. Í heildina högnuðust félögin um hátt í 4,1 milljarð, þar sem meðalhagnaður nam 27 milljónum. Þá eru félög í flokknum endurskoðun og ráðgjöf næst flest, eða 60, og nam meðalhagnaður 26 milljónum.

Lögmannsstofurnar skiluðu þó mestum hagnaði að meðaltali en 30 stofur eru á listanum og högnuðust þær að meðaltali um 62 milljónir. Þá greiddu lögmannsstofurnar mest laun, samtals tæplega þrjá milljarða eða um 100 milljónir að jafnaði.

Fjallað er hagnað og launagreiðslur 400 samlags- og sameignarfélaga í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast listana og umfjöllunina í heild hér.

Útreikningar blaðsins byggja á álögðum tekjuskatti og gera ráð fyrir flötu 37,6% skatthlutfalli og geta því gefið ranga mynd ef um frávik frá því er að ræða. Til viðbótar við lægra skatthlutfall af þegnum arðgreiðslum er félögunum líkt og öðrum heimilt að yfirfæra tap frá liðnum áratug og draga frá skattstofni. Þannig kann hagnaður að hafa verið hærri í fyrra en uppgefin tala, en hún endurspeglar þá í slíkum tilfellum meðalafkomu yfir lengra tímabil aftur í tímann en uppgjörsárið í fyrra.