Landsvirkjun og Fossvélar ehf. á Selfossi hafa samið um framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Alls bárust 6 tilboð í verkið og áttu Fossvélar lægsta tilboðið sem hljóðaði upp á 1,2 milljarða króna eða 74% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboð nam 105% af kostnaðaráætlun.

Fossvélar hefjast handa nú í desember, en áætluð verklok eru í nóvember á næsta ári, að því er segir í fréttatilkynningu.

Fossvélar munu m.a. leggja veg að væntanlegu stöðvarhúsi og undirbúa plan undir vinnubúðir. Í þessum verkum felst upphaf eiginlegra virkjunarframkvæmda á svæðinu, en öll leyfi voru í höfn í lok október.

Í samningnum felst að Fossvélar leggja 3 km langan aðkomuveg inn á virkjunarsvæði Hvammsvirkjunar, þ.e. frá endurbættum Hvammsvegi sem lokið var við fyrr á árinu og að væntanlegu stöðvarhúsi. Efnið til vegagerðarinnar verður sótt í frárennslisskurð virkjunarinnar.

Þá munu Fossvélar einnig undirbúa vinnubúðaplan á jörð Landsvirkjunar, Hvammi 3, en þegar framkvæmdir standa sem hæst árið 2027 munu um 400 manns starfa þar.

Loks felst svo í samningnum að hefja framkvæmdir við fiskistiga. Fiskistigi og seiðafleyta greiða för göngufisks milli Hagalóns og árfarvegar neðan stíflu.

Kolefniskostnaður áætlaður um 60 milljónir

Landsvirkjun segist gera ríkar kröfur til samstarfsfyrirtækja um að draga úr kolefnisspori sínu og aðstoðar við það. Megintæki við ákvarðanatöku sé innra kolefnisverð.

„Það þýðir að losun – eða öllu heldur framtíðarkostnaður vegna losunar – er reiknuð inn í allar stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum og yfir í val á nýjum virkjanakostum. Kolefniskostnaður vegna framkvæmda Fossvéla er áætlaður 60 milljónir kr.“

„Við hjá Fossvélum höfum alltaf leyst öll okkar verkefni af hendi með virðingu fyrir náttúrunni efst í huga. Tækin okkar til efnisvinnslu ganga fyrir rafmagni og við fögnum því að geta nýtt þau í verk sem marka upphaf eiginlegra virkjanaframkvæmda,” segir Elísabet Edda Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Fossvéla.