Hagkerfi Japans dróst saman um 1,2% á ársgrundvelli á þriðja ársfjórðungi, þvert á væntingar greiningar- og markaðsaðila. Þetta kemur fram í grein hjá New York Times.

Hagkerfi Japans er þriðja stærsta í heimi, á eftir hagkerfi Bandaríkjanna og Kína. Greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir hóflegum vexti á þriðja ársfjórðungi, en hagvöxtur mældist 4,6% á öðrum ársfjórðungi.

Verð á innflutningi í Japan hefur hækkað mikið að undanförnu vegna veikingar japanska jensins. Gengi jensins hefur ekki verið lægra gagnvart Bandaríkjadollar frá árinu 1990. Þá hefur Seðlabanki Japans ekkert snert á stýrivöxtum að undanförnu, sem hafa staðið í -0,1% samfellt frá árinu 2016.

Á sama tíma hefur verðbólgan í Japan látið á sér kræla. Mældist hún 3,0% í september og hefur hækkað talsvert á árinu, en hún mældist einungis 0,5% í byrjun árs.