Takist ekki að afla viðbótarfjármagns er veruleg óvissa um rekstrarhæfi Skagans 3X. Félagið hefur á síðastliðnum árum notið stuðnings hluthafa síns, en ekki er hægt að tryggja slíkan stuðning í framtíðinni. Af þeim sökum vinnur það að því að bæta eiginfjárstöðu félagsins í samstarfi við kröfuhafa og nýja fjárfesta. Skaginn 3X hefur þegar fengið eftirgjöf skulda frá hluthafa sínum en jafnframt er unnið að frekari eftirgjöf skulda og nýrri hlutafjáraukningu með ráðgjöfum félagsins, ásamt því að draga frekar úr kostnaði til að tryggja rekstrarhæfi.

Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar í ársreikningi Skagans 3X ehf. fyrir árið 2023. Þar segir jafnframt að á síðasta ári hafi verið farið í endurskipulagningu á rekstrinum til að ná fram hagræðingu í rekstri. Þrjú dótturfélög voru sameinuð Skaganum 3X ehf., en þau eru Lambhúsasund ehf., 3X Technology ehf. og Þorgeir og Ellert ehf.

Til marks um slæma fjárhagsstöðu Skagans 3X var eigið fé félagsins neikvætt um 3,3 milljarða króna í lok síðasta árs.

Þrátt fyrir að rekstrartap án fjármunatekna og -gjalda hafi numið 761 milljón varð 41 milljóna króna hagnaður af rekstri Skagans 3X árið 2023, en 1,3 milljarða króna eftirgjöf skulda frá móðurfélagi og tengdum félögum varð til þess að afkoman var jákvæð. Tap ársins án eftirgjafar skuldar nam því tæplega 1,3 milljörðum. Árið áður nam samanlagt tap Skagans 3X og dótturfélaganna 2,1 milljarði króna.

Eignir félagsins námu 5,1 milljarði í lok síðasta árs, þar af námu kröfur á tengda aðila 2,6 milljörðum en skuldir við tengda aðila námu alls 1,1 milljarði. Skuldir námu 8,4 milljörðum en þar af námu langtímaskuldir við lánastofnanir 2,3 milljörðum.

139 starfsmenn störfuðu að meðaltali hjá Skaganum 3X á síðasta ári miðað við heilsársstörf á námu laun og launatengd gjöld 2,3 milljörðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.