Allar sjö ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri raunávöxtun á árinu 2024.
Mest hækkuðu blandaðar ávöxtunarleiðir, og var nafnávöxtun þeirra á bilinu 10% til 13,8%. Hæst var ávöxtunin í Ævisafni I sem hækkaði um 13,8% sem samsvarar 8,7% raunávöxtun.
Almenni birti í síðustu viku, fyrstur lífeyrissjóða landsins, yfirlit yfir ávöxtun síðasta árs.
Horfur í upphafi árs 2025 eru nokkuð blandaðar að mati Almenna. Lífeyrissjóðurinn vísar í að verðbólga hafi hjaðnað í mörgum löndum sem ætti að gefa rými fyrir frekari vaxtalækkanir.
Þó reikni markaðsaðilar með að lengra verði í frekari vaxtalækkanir Seðlabanka Bandaríkjanna en áður var reiknað með, í ljósi ágæts hagvaxtar vestanhafs og óvissu um stefnubreytingu nýs forseta.
Stríðsátök í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs valdi hins vegar áhyggjum. Á Íslandi sé óvissa vegna jarðhræringa á Reykjanesi sem gæti haft „nokkur áhrif á hagkerfið“. Þá hafi ný ríkisstjórn boðað auðlindagjöld á sjávarútveg og ferðamannaiðnað sem valdi óvissu fyrir stærstu útflutningsgreinarnar og gæti dregið úr fjárfestingum.