Engar eignir fundust í þrotabúi Mainsee Holding ehf. og ekkert fékkst greitt í lýstar kröfur í félaginu, sem námu 14 milljörðum króna.
Félagið var stofnað sumarið 2007 af Novator Pharma II, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, og Salt Pharma sem var að stærstum hluta í eigu Róberts Wessmans í gegnum Salt Investments. Mainsee Holding var eigandi alls hlutafjár í þýska félginu Mainsee Pharma GmbH.
Glitnir HoldCo tók yfir Mainsee Holding síðla árs 2009, en félagið var síðar selt dótturfélagi bankans, GL Investments ehf. Í kjölfarið seldi bankinn þýsku dótturfélagi Actavis Group hf. lyfsölurekstur og ýmsar eigur Mainsee Pharma GmbH. Umsamið kaupverð var upp á 30 milljónir evra.
Skiptum í búinu var lokið 8. mars 2022, en skiptastjóri bússins var Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður.
Sjá einnig: Björgólfur tapar gegn Glitni
Mikið hefur verið fjallað í fjölmiðlum um dómsmálið sem Mainsee höfðaði gegn Glitni Holdco, en Björgólfur Thor fjármagnaði allan rekstur málsins. Um var að ræða riftunarmál vegna kaupa Glitnis á 6,7 milljóna evra kröfu á hendur Salt Investments, fjárhæð sem kom til lækkunar á kröfu Glitnis á hendur Mainsee GmbH.
Tveir kröfuhafar lýstu kröfum í þrotabú Mainsee. Glitnir Holdco, eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, lýsti kröfum upp á 9,1 milljarða króna og Björgólfur Thor lýsti kröfum upp á 4,7 milljarða króna.
Dómsmálið endaði þannig að Glitnir Holdco var sýknað af riftunarkröfu í búinu. Þrotabúið var dæmt til að greiða Glitni 4,5 milljón króna í málskostnað, sem Björgólfur Thor fjármagnaði, eins og áður sagði.