Við opnun markaða á mánudag færðist íslenski hlutabréfamarkaðurinn upp um gæðaflokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell í flokk nýmarkaðsríkja (e. secondary emerging markets) en áður var markaðurinn í flokki vaxtarmarkaða (e. frontier market) frá því í september árið 2019. Íslensk félög verða tekin inn í vísitölu FTSE fyrir nýmarkaði í þremur skrefum. Það fyrsta var tekið á mánudag, þriðjungur af væginu verður svo tekið inn í desember og lokaþriðjungurinn í mars á næsta ári.
Magnús Harðarson, sem er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun, segir að í aðdraganda uppfærslunnar hjá FTSE Russell hafi verið velt vöngum yfir því hvort lokunaruppboð á íslenska markaðnum væru nógu öflug. Þær áhyggjur hafi aftur á móti reynst óþarfar. Tæplega 14 milljarða velta í 337 viðskiptum átti sér stað á aðeins hálfri mínútu í lokunaruppboðinu á föstudaginn.
„Vísitölusjóðir vilja ekki bara eiga viðskipti á síðasta degi fyrir uppfærsluna, heldur vilja þeir helst eiga viðskipti í lokunaruppboðinu og tryggja sér þannig lokaverðið á markaðnum því það minnkar frávik frá vísitöluviðmiðinu. Við vorum satt að segja í svolitlum vafa um hversu öflugt lokunaruppboðið á íslenska markaðnum gæti orðið í ljósi sögunnar. Sagan sýnir að það hafa verið lítil viðskipti í lokunarupppboðum á íslenska markaðnum, eða um hálft prósent af heildarviðskiptum það sem af var ári fyrir föstudaginn. Það var því ánægjulegt að sjá á föstudaginn að um 14 milljarðar, af tæplega 19 milljarða heildarveltu viðskipta, fóru í gegnum lokunaruppboðið og hve vel markaðurinn réði við þetta innflæði. “
Síðasti föstudagur var að sögn Magnúsar ekki síður sögulegur í ljósi þess að um var að ræða veltumesta dag í sögu íslenska hlutabréfamarkaðarins þegar kemur að viðskiptum pöruðum í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Heildarvelta paraðra viðskipta nam um 16 milljörðum króna á föstudag og er langmesta velta sem mælst hefur frá upphafi.
Reiknar þú með svipað mikilli veltu þegar næstu skref verða tekin?
„Já, ég reikna með því. Þar sem þetta fyrsta skref gekk með þessum hætti á ég frekar von á að álíka mynstur verði í viðskiptunum í næstu tveimur fösum.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.