Gangi hugmyndir íslenska fyrirtækisins Carbon Iceland um lofthreinsiverið eftir gætu allt að 500 störf skapast við bindingu koldíoxíðs til eldsneytis- og matvælaframleiðslu. Félagið áormar að reisa verið á Bakka við Húsavík í samstarfi við kanadíska fyrirtækið Carbon Engineering, en fjárfestingin er áætluð um andvirði um 140 milljarða króna.

Frammámenn verkefnisins segja það geta skilað allt að 500 störfum hér á landi, beint og óbeint, og 70 milljörðum króna í tekjur árlega, að stærstum hluta gjaldeyristekjur. Svokallað skattspor þess til ríkis og sveitarfélaga geti því numið allt að 10 milljörðum króna árlega. Viðræður við erlenda fjárfesta eru þegar hafnar.

Carbon Engineering leigir út svokallaða „Direct Air Capture“ tækni sem fyrirtækið hefur þróað til að sjúga koltvísýring beint úr andrúmsloftinu með risastórum viftum, en félagið hefur starfrækt tilraunaver frá árinu 2015 í Bresku Kólumbíu í Kanada sem sýgur koltvísýring úr andrúmsloftinu til eldsneytisframleiðslu.

Bill Gates og olíurisar meðal fjárfesta

Kanadíska fyrirtækið var stofnað árið 2009 af stjórnvöldum og stofnunum sem horfa til sjálfbærni, en meðal einkafjárfesta í fyrirtækinu eru Bill Gates stofnandi Microsoft og nokkur stór olíufélög eins og Chevron, BHP og Occidental að því er kemur fram í umfjöllun CNBC um fyrirtækið.

Byrjað var á undirbúningi þessa verkefnis hér á landi fyrir tveimur árum en íslenska félagið náði samkomulagi við það kanadíska í byrjun þessa árs um að fá að nota tæknina sem félagið hefur þróað og fengið einkaleyfi á.

Tæknin er sögð hafa verið í þróun  og prófunum hjá í Kanada í yfir 10 ár en upphafsmaður aðferðafræðinnar er David Keith, prófessor í eðlisfræði og umhverfisvísindum við Harvard-háskóla.

Áformað er að nota það CO2, sem bundið verður, sem getur numið allt að 1 milljón tonna á ári, til að framleiða grænt CO2 til matvælaframleiðslu og hreint, grænt eldsneyti fyrir skip og önnur samgöngutæki. Jafnframt er mögulegt að binda koltvísýringinn í jörðu með þar til gerðri tækni.

Í viðræðum um staðsetningu á Bakka

Aðstandendur verkefnisins segja um sé að ræða eitt af stærri nýsköpunarverkefnum síðari ára hér á landi en efnahagsleg áhrif þess geti orðið víðtæk fyrir Ísland. Verkefnið styðji mjög við loftslagsmál, auki sjálfbærni og ýti undir grænar áherslur og náttúrulega hringrás.

Carbon Iceland hefur unnið að því undanfarin misseri að aðlaga tækni og aðferðarfræði Carbon Engineering að íslenskum aðstæðum og hefur sú aðlögun snúist um það að nota eingöngu hreina græna raforku í starfsemi lofthreinsiversins.

Endanlegri útfærslu varðandi orkumál er ekki að fullu lokið og verður greint frá þeim niðurstöðum síðar. Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið Norðurþing sem miða að því að starfsemi Carbon Iceland verði staðsett á vistvænum iðngarði á Bakka, við Húsavík.

Áforma þrennns konar vinnslueiningar

Eins og áður segir er áætlað að framkvæmd þessi kosti um 140 milljarða króna og eru þá allar þrjár vinnslueiningarnar taldar með: lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti. Árlegar tekjur, þegar starfsemin verði komin í fullan gang, geti numið allt að 50-70 milljörðum króna, að stærstum hluta gjaldeyristekjur.

Skattspor til ríkis og sveitarfélaga er áætlað um 8-10 milljarðar króna árlega. Fyrstu áform félagsins eru að fjármagna verkefnið erlendis frá og eru viðræður um það þegar hafnar. Fyrirhugað er að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starfsemina.

Forystumeynn Carbon Iceland eru þeir Eyjólfur Lárusson framkvæmdastjóri félagsins og Hallgrímur Óskarsson stjórnarformaður en í yfirlýsingu félagsins segja þeir:

„Við sem stöndum að Carbon Iceland ehf. fögnum því mjög að finna hvað margir aðilar hafa haft trú á verkefninu með okkur og hafa staðið þétt við framvindu þess á undanförnum misserum. Verkefnið á að nýtast samfélaginu öllu enda er um að ræða stórt nýsköpunarverkefni, sem getur haft mikil áhrif á loftslagsmál Íslands, með grænar áherslur þar sem hugvit er notað til að fanga mikið magn af CO2 úr andrúmslofti og umbreyta því í efni til matvælaframleiðslu og framleiðslu á grænu eldsneyti.”

Í yfirlýsingu frá Carbon Engireering segir að viðskiptamódel fyrirtækisins snúist um að leigja út tæknina til notenda víða um heim og séu þeir því ánægðir með að fá Ísland í hóp alþjóðlegra samstarfsaðila sem vinni að því að koma á fót slíku lofthreinsiveri.

Segja þeir Ísland vel til þess fallið með sýna miklu náttúrulegu orku til starfseminnar sem og hér sé mikil tækifæri til að geyma koltvísýring. Þannig verði hægt að draga úr útblæstri, skapa störf og hjálpa til við að berjast við loftslagsvandann.