Kanadísku olíufyrirtækin Whitecap Resources og Veren hafa komist að samkomulagi um samruna fyrirtækjanna en virði samkomulagsins er metið á 15 milljarða kanadíska dollara, eða sem nemur ríflega 1.400 milljörðum króna.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal áætla fyrirtækin að sameinuð framleiðslugeta nemi 370 þúsund olíutunnum á dag og þar með yrði fyrirtækið stærsti léttolíuframleiðandi Kanada en starfsemin er að mestu bundin við Alberta. Samlegðaráhrif muni þá nema 200 milljónum kanadískra dollara á ári.

Framkvæmdastjórn sameinaða fyrirtækisins mun samanstanda af núverandi framkvæmdastjórn Whitecap og verður stjórn mynduð af fjórum framkvæmdastjórum Veren. Gert er ráð fyrir að viðskiptunum verði lokið þann 30. maí næstkomandi.