Afkoma A-hluta ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 148,7 milljarða króna, samanborið við 137,6 milljarða hallarekstur á sama tímabili í fyrra. Halli ríkissjóðs jókst því um 8,1% á milli ára. Afkoman var engu að síður 12 milljörðum betri en áætlun fyrir fyrstu níu mánuði gerði ráð fyrir. Árshlutauppgjör ríkissjóðs var birt í dag.
Verri afkomu má einkum rekja til aukinna vaxtagjalda en hrein fjármagnsgjöld námu 85,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 47,1 milljarða á sama tíma í fyrra.
Afkoma fyrir fjármagnsliði batnaði á milli ára en hún var neikvæð um 59,2 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins en var neikvæð um 111,6 milljarða á sama tímabili árið 2021.
Tekjur töluvert yfir áætlun
Tekjur ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu 720,2 milljörðum en áætlanir gerðu ráð fyrir 649,8 milljörðum. Tekjur jukust um 16% frá sama tímabili fyrra árs.
Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 779,4 milljörðum sem er 1,2% umfram áætlun tímabilsins en aukning um 6,4% milli ára.
Eignir ríkissjóðs námu í lok september samtals 2.809 milljörðum króna, skuldir samtals námu 2.785 milljörðum og eigið fé var jákvætt um 24 milljarða. Handbært fé í lok september var 418,8 milljarðar sem er hækkun um 41,8 milljarða frá ársbyrjun.
Langtímaskuldir voru samtals 1.543,3 milljarðar í lok september og jukust um 232,7 milljarða frá ársbyrjun. Fjárfestingar námu 44,1 milljörðum en fjárfesting á sama tímabili síðasta árs var 39,8 milljarðar.