Seltjarnarnesbær hefur nú gengið frá samningi um fullnaðarhönnun á nýjum leikskóla „Undrabrekku“ við Andrúm arkitekta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki seinni hluta árs 2025.

Lagt er upp með að framkvæmdakostnaður verði á bilinu 1,25-1,5 milljarðar króna, en í tilkynningu segir að erfitt sé að áætla nákvæman kostnað m.a. vegna verðbólgunnar sem nálgast nú 10%.

Um er að ræða 1.550 fermetra byggingu á lóðinni Suðurströnd 1 og verður áfram nýtt húsnæði núverandi leikskóla Mánabrekku og Sólbrekku, sem eru um 1.300 fermetrar í heildina. Þá verður ráðist í endurbætur á húsnæði þeirra, skipulagið yfirfarið og aðbúnaður bættur samhliða byggingu á nýju húsnæði. Tengibygging verður gerð á milli hinnar nýju byggingar, „Undrabrekku“, og Mánabrekku.

Með fyrirhugaðari nýbyggingu mun vinnurými leikskólans tvöfaldast en nýja byggingin mun rúma um 8 leikskóladeildir og allt að 150 börn. Með stækkuninni verður jafnframt mögulegt að veita börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavist, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Verðlaunasamkeppni 2018

Áform um að bæta húsakost leikskólans á Seltjarnarnesi hefur verið á döfinni um nokkurra ára skeið. Árið 2018 efndi bærinn til verðlaunasamkeppni um hönnun á nýjum leikskóla þar sem Andrúm arkitektar hlutu fyrstu verðlaun.

Þá voru til skoðunar stórtækar hugmyndir þar sem skipta átti út öllum fyrirliggjandi leikskólabyggingum á svæðinu fyrir allt að 3.600 fermetra nýbyggingu. Fallið hefur verið frá þeirri hugmynd og verður í staðinn byggður 1.550 fermetra leikskóli til að styðja við núverandi byggingar.