Byggingarfélagið Þingvangur hagnaðist um 153 milljónir króna í fyrra, sem er 14 milljónum minni hagnaður en árið áður. Rekstrartekjur námu 4,6 milljörðum og drógust saman um 461 milljón.

Byggingarfélagið Þingvangur hagnaðist um 153 milljónir króna í fyrra, sem er 14 milljónum minni hagnaður en árið áður. Rekstrartekjur námu 4,6 milljörðum og drógust saman um 461 milljón.

Að sama skapi dróst rekstrarkostnaður saman um 317 milljónir og nam tæplega 4,3 milljörðum. Þar af nam byggingakostnaður 3,4 milljörðum.

Í ársreikningi kemur fram að meginstarfsemi félagsins á árinu 2023 hafi verið verktakaverk fyrir þriðja aðila auk þess sem unnið hafi verið að uppbyggingu á verkefnum félagsins að Hverfisgötu 46, Hallgerðargötu 18 í Reykjavík og Glimmerskarði í Hafnarfirði. Félagið hefur leigt út húsnæðið að Hverfisgötu 46 til hótelkeðjunnar CityHub sem mun hefja starfsemi í september nk. CityHub er einnig með starfsemi í Amsterdam, Rotterdam og Kaupmannahöfn. Öll hótel CityHub samanstanda af svefnklefum.

Að Hallgerðargötu 18 byggði félagið raðhús sem hefur verið leigt út. Þá er uppbygging á raðhúsum í Glimmerskarði í gangi og gert ráð fyrir að það verkefni klárist á yfirstandandi ári.

Þá segir að verkefnastaða félagsins fyrir árið 2024 sé ágæt og stjórnendur geri ráð fyrir áframhaldandi góðum rekstri. Gert sé ráð fyrir að stór hluti eigin verkefna í vinnslu klárist á þessu ári og samhliða því verði framkvæmdalán greidd upp. Framkvæmdalán við lánastofnanir stóðu í 772 milljónum í lok síðasta árs.

Allt hlutafé Þingvangs er í eigu Pálmars Harðarsonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri. Lárus Welding stjórnarformaður félagsins.

Lykiltölur / Þingvangur

2023 2022
Tekjur 4.610  5.071
Eignir 3.259  2.422
Eigið fé 362 209
Afkoma 153  167
- í milljónum króna

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.