Tekjur fiskeldisfélagsins Kaldvík námu 108 milljónum evra í fyrra, eða sem nemur um 16 milljörðum íslenska króna, samanborið við 40 milljónir evra árið 2023. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs námu tekjurnar 32,6 milljónum evra, samanborið við 46,8 milljónir evra á sama tímabili 2023.
Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Kaldvíkur. Tekjuaukningin skýrist fyrst og fremst af því að framleiðsla ríflega þrefaldaðist milli ára. Félagið slátraði 6.668 tonnum af laxi á Austjörðum á fjórða ársfjórðungi og 14.965 tonnum í heild árið 2024 en árið 2023 slátraði félagið í heild 4.395 tonnum laxa.
Fyrirtækið áætlar að slátra um 5.500 tonnum á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og að ársframleiðsla verði 21.500 tonn en til lengri tíma er stefnt á að auka framleiðslu upp í 30.000 tonn.
Félagið niðurfærði lífsmassa upp á 23,1 milljón evra, eða sem nemur um 3,3 milljörðum króna, á árinu vegna óvenju lágs hitastigs sjávar á fjórða ársfjórðungi 2024 og fyrsta ársfjórðungs þessa árs ásamt ófyrirséðu atviki í flutningi, að því er segir í uppgjörstilkynningu. Lágt hitastig sjávar hafi leitt til aukinna vetrarsára og hærri dánartíðnar, sem endurspeglist í tölum fyrir árið 2024.
EBIT á fjórða ársfjórðungi var neikvæð um 18,1 milljón evra en leiðrétt fyrir einskiptis niðurfærslu nam rekstrarhagnaðurinn fimm milljónum evra. Fyrir árið í heild nam leiðréttur rekstrarhagnaður 8,3 milljónum evra árið 2024, sem er aukning um 5,5 milljónir evra frá árinu 2023. Rekstrarhagnaður á hvert framleitt kíló lækkaði þó lítillega milli ára.
Heildarafkoma ársins 2024 var neikvæð um 28,8 milljónir evra en leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði nam tapið 5,7 milljónum evra, samanborið við 22,7 milljóna evra hagnað árið 2023.
Kaup gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi
Í uppgjörstilkynningu er sömuleiðis greint frá fyrirhuguðum kaupum á lykileignum í virðiskeðju Kaldvíkur en greint var frá því í lok síðasta árs að fyrirtækið hafi komist að samkomulagi um möguleg kaup á kassagerðsverksmiðju og þriðjungshlut í sláturhúsinu Búlandstindur ehf. en Kaldvík átti þegar 67% hlut í félaginu.
Skiptar skoðanir voru um kaupin innan stjórnar Kaldvíkur. Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinney-Þinganess, næst stærsta einstaka hluthafa Kaldvíkur, sagði sig úr stjórn félagsins í byrjun árs vegna málsins þar sem hann taldi verðið of hátt. Meirihluti stjórnar samþykkti aftur á móti kaupin.
Róbert Róbertsson, fjármálastjóri Kaldvíkur, segir markmið viðskiptanna vera að styrkja starfsemi á svæðinu og auka hagkvæmni í framleiðsluferlinu.
„Við vonumst eftir töluverðum ávinningi fyrir Kaldvík með þessum viðskiptum þar sem við áætlum að umbúðakostnaður minnki um u.þ.b. 3 milljónir evra árlega, miðað við 20.000 tonna framleiðslu. Þessi vænti ávinningur mun síðan aukast með aukinni framleiðslu hjá Kaldvík,“ segir Róbert en áætlað er að kaupin gangi í gegn á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.
Ný leyfi og endurfjármögnun fram undan
Félagið hefur þá sótt um leyfi fyrir laxeldi í Seyðisfirði en umsóknarferlið hófst árið 2016 hjá Kaldvík. Í desember síðastliðnum voru drög að leyfum fyrir allt að 10.000 tonnum af lífmassa auglýst og fer nú MAST og UST yfir þær umsóknir. Búist er við að leyfi verði gefið út á öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Loks er greint frá því í tilkynningunni að Kaldvík sé í viðræðum við lánveitendur sína um endurfjármögnun á fjármálauppbyggingu fyrirtækisins en markmiðið sé að tryggja hagkvæmari og stöðugri fjármögnun til framtíðar.
„Í ljósi þess að núverandi sambankalán rennur út í apríl á næsta ári, þá hefur Kaldvík hafið viðræður við lánveitendur. Við stefnum á að ljúka endurfjármögnun fyrir lok annars árfjórðungs þessa árs,“ segir Róbert Róbertsson.