Kvika banki skilaði 1.841 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á þriðja ársfjórðungi og var hagnaður fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins því 4.007 milljónir króna. Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár (e. return on weighted tangible equity) fyrir skatta var 12,3% á fyrstu níu mánuðum ársins og 17,7% á þriðja ársfjórðungi. Kvika birti uppgjör eftir lokun markaða.
„Ég er stoltur af uppgjörinu. Félagið er að skila yfir 17% arðsemi á þriðja ársfjórðungi en lykilástæða þess er sterkur kjarnarekstur samstæðunnar,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.
Hreinar vaxtatekjur Kviku námu 5.764 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 97% miðað við sama tímabil árið áður, sem má einkum rekja til stækkunar og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun, kaupum á Ortus Secured Finance og breyttri samsetningu lausafjáreigna.
Hrein virðisrýrnun nam 171 milljónum króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 160 milljónir á sama tíma í fyrra.
Hreinar fjárfestingatekjur voru neikvæðar um 660 milljónir króna við krefjandi aðstæður á eignamörkuðum. Hreinar þóknanatekjur námu 4.905 milljónum króna sem er 4% lækkun frá sama tímabili á fyrra ári. Rekstrarkostnaður nam 9.492 milljón króna á fyrstu níu mánuðum ársins.
„Eins og aðrir þá höfum við fundið fyrir óvissu og erfiðum markaðsaðstæðum m.a. í gegnum fjárfestingastarfsemi okkar, en undir slíkum kringumstæðum er sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölbreytta tekjustrauma samstæðunnar vega hvorn annan upp og viðskiptamódelið sem við höfum lagt mikla vinnu í að byggja upp skila tilætluðum árangri,“ segir Marinó.
Spá 21,7% arðsemi næstu fjóra fjórðunga
Afkomuspá Kviku fyrir næstu fjóra fjórðunga gerir ráð fyrir 9,1 milljarða króna hagnaði fyrir skatta sem samsvarar 21,7% arðsemi á efnislegt eigið fé samstæðunnar. Marinó segir að afkomuspáin sé nokkuð varfærin m.a. vegna aðstæðna á mörkuðum og spá um hægari vöxt í Bretlandi.
„Ég tel Kviku vera í einstakri stöðu til þess að grípa tækifærin og hlakka til að sjá ýmis spennandi verkefni, sem nú eru í undirbúningi, verða að veruleika. Það er þó mikilvægt að við séum meðvituð um þróunina í okkar ytra umhverfi og högum vexti eftir aðstæðum.“