Framkvæmdir voru hafnar á 7.221 íbúð um allt land í september, samanborið við 7.937 íbúðir í mars síðastliðinn og 8.683 í september 2023, samkvæmt niðurstöðum nýjustu íbúðatalningar HMS. Íbúðum í byggingu eru því 16,8% færri en á sama tíma í fyrra.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur hægst á uppbyggingu og fækkar íbúðum í byggingu um 536 íbúðir frá því í mars, sem er samdráttur um 9,7% á milli talninga.
Mest fækkar þeim í Hafnarfjarðarbæ eða um 185 íbúðir og næstmest í Garðabæ þar sem 144 færri íbúðir eru í byggingu miðað við síðustu talningu HMS. Í Reykjavíkurborg fækkar íbúðum í byggingu um 27 íbúðir á milli talninga.
Íbúðir á fyrri framvindustigum ekki færri síðan 2021
Í frétt á vef HMS segir að við samanburð nýjustu talningar við fyrri talningar kemur í ljós að fjöldi íbúða á fyrri framvindustigum (fyrir fokheldi) hafi farið fækkandi í síðustu fimm talningum og hafa þær ekki verið færri síðan í september 2021.
Út frá nýjustu talningu gerir HMS ráð fyrir að 3.024 íbúðir verði fullbúnar í ár sem er í samræmi við spá HMS eftir marstalningu fyrr á þessu ári. Áætlað er að 2.897 íbúðir verði fullbúnar árið 2025 og 2.323 íbúðir árið 2026.