Snekkjan Sherpa, sem er í eigu Íslandsvinarins Jim Ratcliffe, er þessa stundina við Reykjavíkurhöfn. Þetta má sjá inn á vefsíðunni Marine Traffic. Snekkjan er númer 235 á listanum yfir stærstu snekkjur í heimi samkvæmt Super Yacht Times.

Snekkjan, sem var hönnuð af RWD, var byggð árið 2018 af Feadship í Hollandi. Hún er 74 metrar á lengd og nær 16 hnúta hraða. Hún rúmar 13 gesti í sex svítum auk 22 í áhöfn.

Hún er 120 milljón dala virði, eða sem nemur 17 milljörðum króna, og kostar á bilinu 5 til 10 milljónir dala á ári að reka hana.

Samkvæmt Forbes eru eignir Ratcliffe metnar á 11,8 milljarða dala, eða sem nemur tæplega 1.700 milljörðum króna. Ratcliffe hefur nýlega lýst yfir áhuga á því að kaupa enska knattspyrnufélagið Manchester United. Hann á nú þegar franska knattspyrnufélagið Nice.