Fjárfestingarbankinn Goldman Sachs greiddi fyrrum stjórnanda meira en 12 milljónir dala, eða sem nemur yfir 1,7 milljörðum króna, fyrir tveimur árum eftir að hún kvartaði yfir niðrandi ummælum nokkurra af æðstu stjórnendum bankans, þar á meðal forstjórans David Solomon, í garð kvenna falla, samkvæmt heimildum Bloomberg.

Sáttasamkomulagið fól í sér að halda leyndum ítarlegri frásögn hennar um dónaleg ummæli og fyrirlitningu æðstu stjórnenda Goldman í garð kvenna. Samkvæmt heimildum Bloomberg var stjórn Goldman brugðið yfir lýsingum hennar og hvaða einstaklingar voru sagðir á bak við ummælin.

Goldman er sagt hafa samþykkt að greiða þeim sem lagði fram kvörtunina sáttagreiðslu, áður en hún yfirgaf fjárfestingarbankann árið 2020.

„Fréttaflutningur Bloomberg innihélt rangfærslur og við vísum þessari frétt á bug. Allir sem hafa unnið með David vita um þá virðingu sem hann ber fyrir konum og um árangur hans að skapa jákvætt starfsumhverfi fyrir konur,“ sagði aðallögfræðingur Goldman í tilkynningu.

Meirihlutinn af hinum meintu misgjörðum eiga að hafa átt sér stað árið 2018, árið sem Solomon var ráðinn forstjóri, og 2019. Með kvörtuninni fylgdi hljóðupptaka með nokkrum ummælum stjórnenda bankans, samkvæmt tveimur heimildarmönnum.

Þó kvörtunin hafi ekki miðað sérstaklega að Solomon þá fylgdu þó með meint ummæli hans þar sem hann er sagður hafa státað sig af því að vera eina manneskjan í herberginu sem þáði munnmök kvöldið áður.