Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 1,7 milljónir árið 2022 eða um einni milljón fleiri en árið 2021, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Til samanburðar mældist fjöldi brottfara mestur á árunum 2017 til 2019 eða á bilinu 2,0-2,3 milljónir.

Um 73% brottfara árið 2022 voru á síðari hluta ársins. Brottförum fjölgaði alla mánuði ársins 2022 frá fyrra ári. Langflestar voru brottfarirnar í ágúst 2022 eða 243 þúsund. Næstflestar voru þær í júlí, 234 þúsund talsins.

Bandaríkjamenn voru ríflega fjórðungur allra brottfara, Bretar 14% og Þjóðverjar 8%.

Brottfarir Íslendinga voru um 586 þúsund talsins árið 2022 eða um 367 þúsund fleiri en árið 2021. Flestar brottfarir voru farnar í október en þá fóru 72 þúsund Íslendingar utan. Um er að ræða fjórða stærsta ferðaár Íslendinga hvað utanferðir varðar frá því Ferðamálastofa hóf talningar árið 2002.