Síldarvinnslan (SVN) hagnaðist um 13,2 milljónir dala eftir skatta, eða sem nemur 1,8 milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar skilaði útgerðarfélagið 18,7 milljóna dala hagnaði á sama fjórðungi árið 2022, eða sem nam þá 2,4 milljörðum króna. Vísir var þó ekki hluti af samstæðunni á þeim tíma.

Tekjur Síldarvinnslunnar jukust um 18,5% á milli ára og námu 79,5 milljónum dala, eða um 11,1 milljarði króna, á fjórðungnum. Tekjuaukningin skýrist af því að rekstur Vísis ehf. kemur inn í tölurnar í ár.

„Við erum að skila góðum rekstri á fjórðungnum, þrátt fyrir samdrátt á milli ára sem rekja má til minni afla og verðlækkana á loðnuhrognum. Þá vegur bolfiskhlutinn þyngra með tilkomu Vísis inn í samstæðuna,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri SVN, í afkomutilkynningu.

„Það eru enn miklar blikur á lofti í efnahagsmálum á mörgum af okkar helstu markaðssvæðum, sem skapar þrýsting á eftirspurn og verð. Vextir í heiminum halda áfram að hækka sem hefur leitt til hærri kostnaðar af lánum félagsins. Ennfremur er stríðið í Úkraínu stöðug ógn sem ómögulegt er að spá fyrir um hvert mun leiða. Þrátt fyrir átökin þar er Úkraína okkur mikilvægt markaðssvæði og hefur sala þangað á loðnuafurðum og öðru verið umtalsverð og gengið vel."

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi nam 21,1 milljónum dala, eða sem nemur 3 milljörðum króna, og dróst saman 9,6% á milli ára. EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum var 26,5% samanborið við 34,9% á öðrum ársfjórðungi árið 2022.

Eignir samstæðunnar námu 144,9 milljörðum króna í lok júní, skuldir 63,8 milljörðum og eigið fé 81,1 milljarði. Eiginfjárhlutfallið var því um 56%.