Seðlabankinn keypti gjaldeyri síðastliðinn föstudaginn fyrir 18 milljarða króna á gjaldeyrismarkaðinum. Það eru stærstu kaup Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á einum degi frá árinu 2016.

Útboð á óverðtryggðum ríkisbréfum, RIKB 42 0217, fór fram sama dag og voru samþykkt tilboð að nafnverði 21,8 milljarðar króna. Í kjölfar viðskiptanna styrktist krónan um 1% en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má rekja styrkinguna til þess að erlendir aðilar hafi tekið þátt í skuldabréfaútboðinu.

Frá áramótum hefur krónan styrkst um rúm 5% gagnvart evru. Þá hefur krónan styrkst um 1,3% gagnvart Bandaríkjadal og 4,8% gagnvart breska pundinu frá áramótum. Síðast nam dagsvelta Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði yfir 10 milljörðum króna í desember árið 2020 þegar bankinn seldi gjaldeyri fyrir rúmlega 13 milljarða króna.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .