Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins sagði í ræðu á Alþingi í fyrr í dag að verið væri að setja met í aukningu ríkisútgjalda í umræðum um fjárlög 2023.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram breytingu á fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í september. Aukast ríkisútgjöldin um 51 milljarð við það.
Í ræðu sinni sagði Bergþór þetta mestu aukningu ríkisútgjalda í langan tíma, að minnsta kosti frá árinu 2007 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar var við völd.
„Raunverulega sýnist mér því að hér sé verið að leggja til útgjaldaauka á milli ára upp á 180 milljarða. Þetta er án nokkurs vafa met í milljörðum talið í þróun útgjalda ríkissjóðs á milli ára. Maður taldi ólíklegt að nokkurn tímann yrði viðlíka ár og þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði hér allt fyrir alla árið 2007 með mikilli aukningu útgjalda á milli ára en þessi þróun er alveg örugglega að bæta mjög verulega í það.“
5 milljarðar til viðbótar í útlendingamál
Bergþór gerði einnig að umtalsefni 5 milljarða aukningu til útlendingamála síðan úr frumvarpinu sem lagt var fram í september.
„Virðulegur forseti. Nú hefur hæstvirtur fjármálaráðherra lýst því yfir að ástandið á landamærunum sé ekki stjórnlaust þvert á skoðun hæstvirts dómsmálaráðherra. Samt leggur fjármálaráðherra til í þessu að 5 milljörðum verði bætt við útlendingamál frá því að hæstvirtur ráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp í september. Það er einn heill almanaksmánuður á milli. Hvernig er hægt að lýsa þessu öðruvísi en sem stjórnlausu ástandi og núna í ríkisfjármálum? Öðruvísi mér áður brá.“
Bergþór sagði að um stjórnlausa aukningu ríkisútgjalda væri að ræða og óskaði eftir að eiga orðastað við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra.