Gengi bréfa Iceland Seafood hefur tekið mikið stökk á undanförnum dögum og hækkað um 19% síðastliðna viku.

Gengi bréfa félagsins stóð í 6 krónum eftir lokun markaða á föstudaginn 13. janúar en var komið upp í 7,15 krónur eftir lokun markaða á föstudaginn 20. janúar og hefur ekki verið hærra í tvo mánuði.

Gengi félagsins lækkaði ógnarhratt á árinu 2022. Það stóð hæst í 16,45 krónum í byrjun árs en var komið niður í 5,95 krónur í lok árs.

Iceland Seafood International (ISI) tilkynnti fyrir helgi að viðræður við virtan aðila í iðnaðinum, sem skrifaði undir viljayfirlýsingu í lok desember um kaup á meirihluta í breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK, hefðu ekki borið árangur.

Stjórn ISI tilkynnti um miðjan nóvember að hún hefði ákveðið að yfirgefa Bretlandsmarkað, þar sem rekstur breska dótturfélagsins Iceland Seafood UK hefði gengið erfiðlega á síðustu þremur árum.