VEX I, framtakssjóður í rekstri VEX, hagnaðist um 1,9 milljarða króna í fyrra, samanborið við 1,1 milljarðs hagnað árið áður. Hagnaðurinn var knúinn áfram af gangvirðisbreytingu eignarhluta í félögum.

Eignarhlutir framtakssjóðsins í félögum voru bókfærðir á 12,7 milljarða. Umræddar eignir eru 39,3% hlutur í AGR Dynamics, 47% hlutur í Annata, 10,6% hlutur í Icelandic Provision, 57,7% hlutur í Opnum kerfum, 40,9% hlutur í Varist og 48,8% eignarhlutur í L 1234 ehf. sem á 91,2% hlut í Öryggismiðstöð Íslands.

1,6 milljarða fjárfesting í Kaptio

Annar framtakssjóður í rekstri VEX, VEX II, hóf starfsemi í fyrra. Heildarhlutafjárloforð félagsins er tæpir 15 milljarðar krónar en óádregin hlutafjárloforð 31. desember 2024 námu 13,2 milljörðum. Sjóðurinn festi kaup á tæplega helmingshlut í Kaptio, sem þróar og selur bókunarhugbúnað fyrir ferðaþjónustuna, fyrir tæplega 1,6 milljarða króna.

VEX  fjárfestir fyrir hönd lífeyrissjóða, tryggingafélaga og einkafjárfesta í óskráðum fyrirtækjum.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.