Brim á stóran hlut í fyrirtækjum sem ráða yfir 20,34% alls kvóta á landinu eftir kaup fyrirtækisins á 34,1% hlut í HB Granda á 21,7 milljarða króna á miðvikudaginn.

HB Grandi ráða yfir 10,87% aflaheimilda samkvæmt gögnum um aflahlutdeild sem Fiskistofa birti í mars . Aflahlutdeild Brim nemur 3,5%, aflahlutdeild Ögurvíkur, sem er í eigu Brim, er 1,53%. Brim á þar að auki tæplega þriðjungshlut í Vinnslustöð Vestmannaeyja (VSV) sem hefur yfirráð yfir 4,44% kvóta. Samtals gera þetta 20,34%.

Fiskistofa fylgist með

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má aflahlutdeild í eigu tengdra aðila ekki nema hærra en 12% af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda. Ekki er ljóst hvort ákvæði laga um stjórn fiskveiðar um hámarksaflahlutdeild í eigu tengdra aðila virkist við kaupin. Lögmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við sögðu tilvikið matskennt og því ekki hægt að segja almennilega til um hvort eignarhlutur Brims teldist nægilega stór til að gera það að verkum að hann teldist eiga hærra hlutfall aflaheimilda en lögin heimila. Þá fengust þær upplýsingar hjá Fiskistofu að stofnunin hefði almennt eftirlit með þessum hlutföllum og tæki mál jafnframt sérstaklega til skoðunar ef tilefni væru til.

Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, telur að lagaákvæði um hámarkshlutdeild aflaheimilda muni ekki hafa áhrif á viðskiptin að því er fram kom í Morgunblaðinu .

Í lögunum eru tengdir aðilar skilgreindir sem „aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar.“

Yfirtökuskylda á Brim

Því er ljóst að VSV telst vart tengdur aðili samkvæmt lögunum þar sem Brim á innan við þriðjungshlut. Þá telst eignarhluturinn í HB Granda vart sem tengdur aðili að svo stöddu. Á Brim ríkir hins vegar yfirtökuskylda á HB Granda . Brim er skylt á næstu fjórum vikum að gera tilboð í þau 65,9% sem eftir standa í HB Granda. Eignist Brim meirihluta í HB Granda mun Brim því að óbreyttu eiga meirihluta í fyrirtækjum sem hafa hlutdeild 15,9% hlutdeild alls kvóta.

Afstaða hluthafa HB Granda gagnvart fyrirhuguðu yfirtökutilboði liggur ekki fyrir. Stærstu hluthafar í HB Granda að Brim undanskildu eru lífeyrissjóðir. Á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í HB Granda eiga lífeyrissjóðir samtals 44%. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafinn og á 13,7% hlut. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ólíklegt að síðastnefndi lífeyrissjóðurinn selji sinn hlut, þar sem HB Grandi er eina sjávarútvegsfyrirtækið í eigu sjóðsins og hefur sjóðurinn þá stefnu að dreifa áhættu sinni sem víðast.

Næstir á hluthafalista HB Granda eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sem á 11,5%, Gildi lífeyrissjóður sem á 8,62% hlut og Birta lífeyrissjóður sem á 4% hlut.

Þá lýsti Guðmundur því í Fréttablaðinu að það sé honum á móti skapi að þurfa að gera yfirtökutilboð í HB Granda. Þá segist Guðmundur ekki eiga von á því að Samkeppniseftirlitið setji Brim stólinn fyrir dyrnar þar sem fyrirtækin séu ekki í beinni samkeppni hér innanlands þar sem þau flytji út nær alla sína framleiðslu.

Eignist Brim meirihluta í HB Granda mun Brim að óbreyttu eiga meirihluta í fyrirtækjum sem eiga 27% í aflahlutdeild ufsa og 28% aflahlutdeild í grálúðu en þakið samkvæmt lögunum er 20%. Þá mun Brim að óbreyttu ráða yfir 40% aflahlutdeild í gullkarfa og 46% aflahlutdeild í djúpkarfa þar sem þakið samkvæmt lögunum er 35%.