Listaverkið Grínistinn (e. Comedian) eftir ítalska listamanninn Maurizio Cattelan var til sýnis í New York á dögunum en verkið verður selt á uppboði hjá Sotheby's þann 20. nóvember næstkomandi.
Verkið, þar sem banani er festur á vegg með silfurlitaðu límbandi, leit fyrst dagsins ljós í desember 2019 en haft var eftir Cattelan í viðtali árið 2021 að verkið væri ekkert grín, heldur ádeila á hvað samfélagið metur að verðleikum. Banananum er reglulega skipt út en í tvígang hefur áhorfandi borðað sjálfan bananann.
Fram að uppboði Sotheby's verður verkið meðal annars til sýnis í London, París, Dubai, Tokýó og Los Angeles. Áætlað er að listaverkið muni seljast á allt að 1,5 milljónir dala, eða sem nemur ríflega 200 milljónum króna.