Eftir útboðsferli þar sem sjö auglýsingastofur sendu inn tillögur, var íslenska auglýsingastofan Peel hlutskörpust til að vinna markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu sem framkvæmt er af Íslandsstofu og fjármagnað af stjórnvöldum.

Peel vinnur verkefnið í samstarfi við M&C Saatchi, sem hefur alþjóðlegt net á lykilmörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu á sínum snærum.

Verkefnið, sem ber heitið Ferðaþjónusta til framtíðar, er hluti af aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu til 2030 og miðar að því að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar, stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustu og viðhalda samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar.

Alls verður 200 milljónum króna varið til verkefnisins á árinu 2025.

Val á samstarfaðila markar upphaf framkvæmdahluta verkefnisins. Næstu skref felast í undirbúningi og samráði við hagaðila í ferðaþjónustu og opinbera aðila.

Valið byggði á faglegu mati sem fram fór af hálfu Íslandsstofu og verkefnisstjórnar og var nefndin samhljóma, að því er segir í tilkynningu Íslandsstofu.

Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar fyrir hönd Atvinnuvegaráðuneytisins, Íslandsstofu, Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og markaðsstofa landshlutanna.

„Markaðsverkefnið Ferðaþjónusta til framtíðar byggir á skýrum áherslum stjórnvalda um markvissa og viðvarandi markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað. Verkefnið miðar að því að styðja við langtímauppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu og viðhalda samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Við hlökkum til samstarfsins við Peel og hagaðila ferðaþjónustunnar við útfærslu þessa mikilvæga verkefnis,“ segir Oddný Arnarsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu og formaður verkefnisstjórnar.

Oddný Arnarsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu og formaður verkefnisstjórnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við erum þakklát fyrir traustið og hlökkum til að leggja okkar af mörkum í samstarfi við Íslandsstofu og ferðaþjónustuna. Ísland er einstakur áfangastaður og við viljum hjálpa til við að miðla þeirri sögu á skýran og áhrifaríkan hátt,” segir Magnús Magnússon, meðeigandi Peel.

Magnús Magnússon, meðeigandi Peel.
Magnús Magnússon, meðeigandi Peel.
© Aðsend mynd (AÐSEND)